Fara í efni
Þór

Boginn vart nothæfur vegna slysahættu

Úr öðrum vítateignum. „Það segir sig sjálft að hér vill enginn taka víti, en þess utan er holan stórhættuleg og auðvelt að slasast illa, stígi leikmaður þarna ofan í,“ segir í skýrslu dómaranna.

Knattspyrnudómarar á Akureyri segja margar slysagildrur á gervigrasinu í Boganum. Þeir telja völlinn vart leikhæfan til keppnisleikja, eins og það er orðað í skýrslu stjórnar Knattspyrnudómarafélags Norðurlands. 

Knattspyrnusamband Íslands (KSÍ) segir ljóst að taka verði erindi dómarafélagsins alvarlega. Af myndunum í skýrslunni að dæma sé völlurinn vart leikfær, og taka má undir að myndirnar hér að neðan eru ekki fallegar.

Íþróttafélagið Þór sér um daglegan rekstur hússins. Í bréfi til knattspyrnudeildar Þórs fer KSÍ fram á að strax verði upplýst hvenær viðgerðir muni fara fram og í kjölfarið muni KSÍ meta hvort leikir í Lengjubikarnum í vetur geti farið fram, svo og hvort Boginn komi til greina sem varavöllur fyrir leiki sumarsins í efstu deild kvenna.

Skipt var um gras í Boganum 2016. Í skýrslu dómaranna segir að völlur hússins „hafi átt betri daga,“ eins og það er orðað. „Nú er svo komið að slysagildrur eru orðnar margar á teppinu og meiðsli orðin alltof algeng í húsinu. Á það bæði við um leikmenn og dómara. Á þessu þarf að verða bót og er ástandið orðið slíkt að við teljum húsið vart leikhæft til keppnisleikja,“ segja dómararnir.

„Þór sér um daglegan rekstur hússins og hafa þeir talað fyrir daufum eyrum Akureyrarbæjar hvað varðar lagfæringar á vellinum.“

Dómarar segja að þetta verði að laga áður en keppnistímabilið fer í gang, að öðrum kosti verði ekki hægt að tryggja öryggi leikmanna og dómara.

„Þessi listi er alls ekki tæmandi og myndirnar teknar á litlu svæði, sem dæmi um ástand vallarins strax eftir að leik lauk. Við vonum að þetta verði lagfært sem fyrst til að tryggja öryggi þeirra sem að knattspyrnunni koma.“

Mynd úr öðrum markteignum. „Hér krækti leikmaður tábergi undir teppið og þurfti aðhlynningu. Betur fór þó en á horfðist,“ segir í skýrslu dómarafélagsins.

Hér má sjá hlaupalínu annars aðstoðardómarans. „Fyrir skömmu flæktist dómari í skemmdinni, þurfti að hætta leik og er enn að glíma við meiðsli,” segir í skýrslu dómaranna.

„Þessi skemmd sést illa en er djúp og hættuleg. Það eru u.þ.b. 4 svona holur á vellinum, sem geta valdið leikmönnum og dómurum slæmum meiðslum,“ segir í skýrslu dómaranna.

Úr öðrum vítateignum. „Það segir sig sjálft að hér vill enginn taka víti, en þess utan er holan stórhættuleg og auðvelt að slasast illa, stígi leikmaður þarna ofan í,“ segir í skýrslu dómaranna.