Fara í efni
Þór

Bjarni Guðjón skoraði er Þór gerði jafntefli

Bjarni Guðjón Brynjólfsson, Þórsarinn lengst til vinstri, skoraði á Selfossi í kvöld. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Þórsarinn ungi Bjarni Guðjón Brynjólfsson skoraði í kvöld þegar liðið gerði 1:1 jafntefli við Selfoss í Lengjudeildinni í knattspyrnu, næst efstu deild Íslandsmótsins, á Selfossi.

Bjarni Guðjón skoraði af stuttu færi strax á áttundu mínútu; Ásgeir Marinó Baldvinsson sendi fyrir markið, Stefán markvörður sló boltann út í markteiginn þar sem Bjarni var á undan varnarmanni og skoraði.

Þegar um 20 mínútur voru eftir jafnaði Ingvi Rafn Óskarsson metin með föstu skoti úr miðjum teignum; eftir langa sendingu utan af hægri kanti og baráttu í teignum datt boltinn fyrir fætur Ingva Rafns sem lét vaða strax.

Fyrri hálfleikurinn var í jafnvægi en Þórsarar léku af meiri varfærni í seinni hálfleiknum en fyrir hlé, Selfyssingar voru meira með boltann og nær því að bæta við marki en gestirnir. Eftir að Selfyssingar jöfnuðu sóttu Þórsarar reyndar töluvert í sig veðrið en náðu ekki að skapa verulega hættu við mark heimamanna. 

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna.