Fara í efni
Þór

Bjarni Guðjón gerði tvö mörk í öruggum sigri

Hinn stórefnilegi Bjarni Guðjón Brynjólfsson gerði bæði mörk Þórs í gær. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Þórsarar unnu öruggan 2:0 sigur á Þrótti í Vogum í gær í Lengjudeildinni, næst efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu. Þeir eru þar með komnir með 27 stig og eru í sjöunda til níunda sæti, aðeins tveimur stigum á eftir liðinu í fimmta sæti.

Það var Bjarni Guðjón Brynjólfsson, sá bráðefnilegi drengur, sem gerði bæði mörkin í fyrri hálfleik í Vogum; það fyrra strax á fjórðu mínútu með laglegum skalla eftir skemmtilega útfærða hornspyrnu og seinna markið gerði hann á 38. mín. eftir sendingu frá jafnaldra sínum Kristófer Kristjánssyni, öðrum stórefnilegum fótboltamanni.

Snemma í síðari hálfleik var Al­ex­and­er Már Þor­láks­son, framherji Þórs, rekinn af velli. Hann komst einn inn fyrir vörn Þróttar eftir langa sendingu Arons Birkis í Þórsmarkinu og Essafi markvörður Þróttar kom langt út fyrir teig á móti Alexander. Þórsarinn spyrnti boltanum framhjá Essafi en þeir lentu saman um leið; Alexander fór með fótinn í höfuð andstæðingsins og rauða spjaldið fór á loft. Deildar meiningar voru um það hvorn ætti að reka út af en skoðun dómarans er víst sú eina sem skiptir máli ...

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna