Fara í efni
Þór

Birkir og Brynjar í hópnum, Aron ekki með

Aron Einar Gunnarsson, Brynjar Ingi Bjarnason og Birkir Bjarnason.

Birkir Bjarnason og Brynjar Ingi Bjarnason eru í landsliðshópnum í knattspyrnu sem tilkynntur var í dag, fyrir heimaleikina gegn Armeníu og Liechtenstein í undankeppni HM í október. Landsliðsfyrirliðinn, Aron Einar Gunnarsson, er hins vegar ekki í hópnum að þessu sinni.

Landsliðsþjálfarinn Arnar Þór Viðarsson sagði á blaðamannafundi í dag að stjórn KSÍ hefði ekki sett honum neinar skorður varðandi valið. Fyrir síðustu leikjatörn bannaði stjórnin landsliðsþjálfaranum að nota Kolbein Sigþórsson og vefurinn 433.is fullyrti fyrr í dag að bráðabirgðastjórn KSÍ hefði bannað honum að velja Aron Einar. Því neitar Arnar Þór.

Aron Einar hefur náð sér eftir kórónuveirusmit og spilað með Al Arabi í Katar undanfarið.  „Aron Einar er ekki valinn í þetta verkefni. Eftir mörg góð samtöl á milli mín, Arons og Eiðs Smára tók ég þá ákvörðun að velja Aron ekki. Ástæðan fyrir því er utanaðkomandi og ég get því miður ekki farið neitt nánar út í það í dag,“ er haft eftir Arnari Þór á Vísi.

Fjarveran útskýrð síðar

Spurður nánar hvort þjóðin ætti ekki skilið skýrari svör vegna fjarveru fyrirliðans sagði Arnar: „Þær munu að sjálfsögðu koma. Þegar ég tala um utanaðkomandi ástæður er það í samráði við Aron. Þetta er landsliðsfyrirliðinn okkar og við erum að vinna okkur saman í gegnum þessar utanaðkomandi ástæður. Þegar tíminn er tilbúinn munum við að sjálfsögðu útskýra það.“

Smellið hér til að sjá allan landsliðshópinn.