Þór
Aron Ingi kominn heim til Þórs á ný
09.03.2023 kl. 13:15
Aron Ingi Magnússon í leik með Þór í fyrrasumar.
Knattspyrnumaðurinn Aron Ingi Magnússon er kominn í herbúðir Þórsara á ný eftir tæplega átta mánaða dvöl hjá Venezia á Ítalíu. Greint er frá þessu á heimasíðu Þórs í dag.
Aron var lánaður frá Þór til Venezia um mitt síðasta keppnistímabil. Ítalska félagið hafði forkaupsrétt á leikmanninum að lánstímanum loknum en nýtti sér hann ekki. Aron mætti aftur til æfinga í Þorpinu í byrjun vikunnar, er kominn með leikheimild og því löglegur þegar Þór heimsækir Þrótt í Lengjubikarnum á laugardaginn.
Aron er á nítjánda aldursári; hefur leikið 25 leiki fyrir meistaraflokk Þórs og skorað í þeim eitt mark. Hann á fjóra landsleiki að baki fyrir U19 ára landslið Íslands.