Fara í efni
Þór

Aron Einar skoraði en tapaði í bikarúrslitum

Aron Einar Gunnarsson í leiknum í dag. Myndin er tekin úr útsendingu katarska sjónvarpsins.

Aron Einar Gunnarsson, landsliðsfyrirliði í fótbolta, skoraði í bikarúslitaleiknum í Katar í dag en það dugði ekki til. Al-Arabi, sem Aron leikur með og Heimir Hallgrímsson þjálfar, tapaði 2:1 fyrir Al-Sadd, besta liði landsins, sem spænska goðsögnin Xavi þjálfar.

Al-Sadd skoraði strax á upphafsmínútunum en Aron jafnaði af stuttu færi eftir mikinn darraðardans í markteignum á 23. mínútu. Svo skemmtilega vill til að Aron, sem ekki er oft á skotskónum, skoraði einnig í undanúrslitaleik keppninnar.

Rétt áður en fyrri hálfleikur var allur komst Al-Sadd aftur yfir og þar við sat. Sigurinn var sanngjarn en litlu munaði að Al-Arabi jafnaði á 84. mín. Aron tók aukaspyrnu nokkrum metrum utan teigs, sending hans var frábær en einn samherjanna skallaði hárfínt framhjá úr dauðafæri.

Leikurinn í dag er sá fyrsti sem fram fer á Al Rayyan leikvanginum, sem byggður var með heimsmeistaramótið 2022 í huga. Þjóðhátíðardagur Katar er í dag og mikið um dýrðir á vellinum.

Aron Einar Gunnarsson tekur við gjöf að leikslokum í dag.