Fara í efni
Þór

Arnór var ekki með í kvöld vegna meiðsla

Arnór Þór hitar upp fyrir leikinn gegn Sviss í kvöld. Ljósmynd: IHF.

Athygli vakti að Arnór Þór Gunnarsson, landsliðsfyrirliði í handbolta, kom ekkert við sögu í leiknum gegn Sviss á HM í Egyptalandi í dag. Arnór Þór hafði þar til í kvöld alltaf spilað fyrri hálfleik og Sigvaldi Guðjónsson þann síðari. Akureyri.net lék forvitni á því hverju það sætti að fyrirliðinn sat allan tímann á bekknum að þessu sinni og svarið er þetta: Hann meiddist á læri í leiknum gegn Marokkó á mánudaginn, hitaði upp fyrir leikinn í kvöld til að láta reyna á lærið en fann að hann var ekki leikfær. Vonandi verður fyrirliðinn klár í slaginn í næsta leik, gegn Frökkum á föstudaginn.

Ísland tapaði fyrir Sviss í Kaíró í dag, 20:18. Þetta var fyrsti leikurinn í milliriðli og Ísland telst nú með 2 stig eftir 3 leiki því viðureignir gegn þeim þjóðum, sem einnig komust úr upphafsriðlinum, gilda áfram í miðlliriðli. Ísland tapaði fyrir Portúgal en vann Alsír.