Fara í efni
Þór

Arnór Þór og Oddur fara báðir á HM

Oddur Gretarsson og Arnór Þór Gunnarsson verða báðir á HM í Egyptalandi.

Arnór Þór Gunnarsson og Oddur Gretarsson eru báðir í landsliðshópi Íslands fyrir heimsmeistaramótið í handbolta sem fram fer í Egyptalandi í janúar. Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari, tilkynnti 21 leikmanna hóp í morgun.

Sami hópur leikur gegn Portúgal í undankeppni næsta Evrópumóts, sem fram fara rétt fyrir HM – 6. janúar í Portúgal og 10. janúar á Ásvöllum í Hafnarfirði. Fyrsti leikur Íslands á HM á HM, 14. janúar, verður svo við ... Portúgal. Alveg satt!

Arnór Þór hefur verið fastamaður í landsliðinu undanfarin ár, og einn lykilmanna, en Oddur hefur verið viðloðandi hópinn annað slagið og ekki farið á stórmót síðan 2011. Hann var með liðinu á HM í Svíþjóð 2011 og á EM í Serbíu 2012 en lék nánast ekki neitt.

„Það er auðvitað gaman og mikill heiður að vera valinn í landsliðið. Ég hlakka til að fá tækifæri til þess að sýna mig og hjálpa liðinu í þessum verkefnum,“ sagði Oddur við Akureyri.net í morgun. Tvímenningarnir léku báðir með yngri flokkum Þórs og meistaraflokki félagsins. Oddur lék síðan með liði Akureyrar áður en hann hélt utan en Arnór fór til Vals sumarið sem Akureyrarliðið var stofnað.

Landsliðshópurinn er þannig skipaður:

Markverðir: Björg­vin Páll Gúst­avs­son, Hauk­um, Ágúst Elí Björg­vins­son, Kol­d­ing og Vikt­or Gísli Hall­gríms­son, GOG.

Vinstra horn: Bjarki Már Elís­son, Lem­go og Odd­ur Gret­ars­son, Bal­ingen.

Skytt­ur vinstra meg­in: Aron Pálm­ars­son, Barcelona, Magnús Óli Magnús­son, Val og Ólaf­ur Guðmunds­son, Kristianstad.

Miðju­menn: Elv­ar Örn Jóns­son, Skjern, Gísli Þor­geir Kristjáns­son, Mag­deburg og Jan­us Daði Smára­son, Göpp­ingen.

Skytt­ur hægra meg­in: Al­ex­and­er Peters­son, Rhein-Neckar Löwen, Viggó Kristjáns­son, Stutt­g­art, Kristján Örn Kristjáns­son, Aix og Ómar Ingi Magnús­son, Mag­deburg.

Hægra horn: Arn­ór Þór Gunn­ars­son, Berg­ischer og Sig­valdi Björn Guðjóns­son, Kielce.

Línu­menn: Arn­ar Freyr Arn­ars­son, Melsungen, Elliði Snær Viðars­son, Gum­mers­bach, Kári Kristján Kristjáns­son, ÍBV og Ýmir Örn Gísla­son, Rhein-Neckar Löwen.