Fara í efni
Þór

Arnór einn þjálfara Bergischer – skórnir á hilluna

Þórsarinn Arnór Þór Gunnarsson, fyrrverandi landsliðsmaður, leggur handboltaskóna á hilluna eftir síðustu umferð þýsku 1. deildarinnar á sunnudaginn.

Boltinn verður þó ekki fjarri hornamanninum snjalla þótt hann hætti að spila því Arnór mun starfa áfram hjá félaginu. Hann kemur inn í þjálfarateymi aðalliðs Bergischer frá og með komandi sumri – verður annar tveggja aðstoðarþjálfara Jamal Naji, sem tók við þjálfun liðsins á síðasta ári. Ekki nóg með það heldur verður Arnór einnig aðalþjálfari 16 ára liðs Bergischer.

Síðasti leikur á ferli hornamannsins snjalla verður á heimavelli gegn HC Erlangen og svo skemmtilega vill til að gamla landsliðskempan Ólafur Stefánsson er aðstoðarþjálfari þar á bæ.

Arnór Þór sleit fyrstu handboltaskónum í yngri flokkum Þórs og lék með meistaraflokki félagins fjóra vetur áður en hann gekk til liðs við Val. Hann var með Reykjavíkurfélaginu í fjögur keppnistímabil og hélt þaðan til Þýskalands, þar sem hann hefur starfað sem handboltamaður síðustu 11 ár. Fyrst lék hann með liði TV Bittenfeld í Stuttgart í tvö ár en er nú að ljúka níunda vetrinum með Bergischer.

Hann á að baki 120 landsleiki fyrir Ísland og var fyrirliði liðsins á einu stórmóti, heimsmeistaramótinu í Egyptalandi árið 2021.

Arnór Þór náði þeim merkilega áfanga á dögunum að skora 1000. markið í efstu deild í Þýskalandi. Á myndinni að ofan er hann með grip sem félagið lét útbúa og afhenti honum af því tilefni. 

  • Nánar um Arnór Þór á Akureyri.net síðar í dag

Arnór Þór Gunnarsson, fyrirliði Íslands, ræðir við samherjana á HM í Egyptalandi árið 2021.