Fara í efni
Þór

Arna Sif gengur til liðs við Val

Arna Sif Ásgrímsdóttir, fyrirliði Þórs/KA, er á leiðinni í Val. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Arna Sif Ásgrímsdóttir, fyrirliði knattspyrnulisð Þórs/KA, hefur samið við Val í Reykjavík. Samningur hennar við Þór/KA rennur út um áramót.

Þetta kemur fram á heimasíðu Þórs/KA.

Þar birtist eftirfarandi frétt áðan:

Nú er orðið ljóst að Arna Sif Ásgrímsdóttir, fyrirliði Þórs/KA, hefur spilað sinn síðasta leik fyrir félagið – í bili, að minnsta kosti. Hún hefur skrifað undir samning við Val og gengur til liðs við Íslandsmeistarana og endurnýja þar kynni sín við Hlíðarendaliðið frá 2016-2017.

Samningur Örnu Sifjar við Þór/KA rennur út um áramótin og ákvað hún að endurnýja ekki samninginn heldur leita fyrir sér á öðrum vettvangi.

Fimmtán tímabil í meistaraflokki

Arna Sif á að baki 330 leiki í meistaraflokki – A-deild, bikarkeppni, deildarbikar, Meistarakeppni KSÍ og Evrópuleikir – og hefur skorað 65 mörk í þeim leikjum. Auk þeirra eru níu leikir í Reykjavíkurmóti og þrír í Kjarnafæðismótinu. A-landsleikirnir eru 12 og er í raun alveg með ólíkindum að þeir skuli ekki vera fleiri. Meistaraflokksleikir með erlendum félagsliðum eru 31 (Svíþjóð, Ítalía, Skotland).

Meistaraflokksferillinn hófst með leik í B-deild Lengjubikarsins þann 17. mars 2007 og þar kom líka fyrsta markið þegar hún skoraði annað mark liðsins á 90. mínútu í 2-0 sigri gegn FH. Arna Sif spilaði svo fyrsta leik sinn í efstu deild, þá Landsbankadeildinni, þann 21. maí 2007 gegn Keflavík.

Fyrstu átta tímabilin í meistaraflokki var hún með Þór/KA og vann meðal annars Íslandsmeistaratitil sem fyrirliði liðsins 2012 og var í framhaldi af því valin íþróttamaður Akureyrar. Tímabilið 2015 var hún á mála hjá Kopparbergs/Göteborg í Svíþjóð, síðan tvö ár hjá Val og svo aftur með Þór/KA frá 2018 eftir stutta dvöl hjá Verona á Ítalíu. Hún var á lánssamningi hjá Glasgow City FC fyrstu mánuði þessa árs og varð skoskur meistari með félaginu.

Arna Sif fékk viðurkenningu frá stjórn félagsins fyrir lokaleik liðsins í haust, en hún hafði sumarið 2020 spilað sinn 200. meistaraflokksleik fyrir Þór/KA. Sú talning miðaði þó aðeins við leiki í deild, bikar, meistarakeppni og Evrópukeppni, en ekki deildarbikar. Með breyttri uppsetningu og talningu leikja á vef KSÍ teljast leikirnir með Þór/KA orðnir 290, þar af 57 í deildarbikarnum. Þá hefur hún spilað átta Evrópuleiki með Þór/KA (2011, 2013 og 2018).

Norðanblær á Hlíðarenda

Hjá Val mun Arna Sif hitta fyrir tvo fyrrverandi liðsfélaga úr Þór/KA, þær Önnu Rakel Pétursdóttur og Lillý Rut Hlynsdóttir, en hjá félaginu leikur einnig Sandra Sigurðardóttir markvörður sem hóf meistaraflokksferilinn með Þór/KA/KS 2001.

Stjórn Þórs/KA þakkar Örnu Sif fyrir hennar mikla og farsæla framlag til liðsins og óskar henni alls hins besta á nýjum vettvangi.

Heimasíðan er með viðtal við Örnu Sif í vinnslu og verður það birt hér á allra næstu dögum.