Fara í efni
Þór

Andri Snær: „afar stoltur af liðinu“

Leikmenn, þjálfarar og liðsstjóri KA/Þórs við hótel liðsins í Elche. Ljósmynd: Elvar Jónsteinsson.

Andri Snær Stefánsson, þjálfari Íslands- og bikarmeistara KA/Þórs í handbolta kvenna, var stoltur eftir sigur liðsins í seinni Evrópuleiknum gegn CB Elche á Spáni í gær. KA/Þór féll úr keppni en var í raun ekki langt frá því að komast í næstu umferð.

„Við byrjuðum leikinn afar illa og vorum með marga glataða bolta sem var dýrkeypt í svona baráttu. Varnarleikurinn var hinsvegar frábær í 45 mínútur og það munaði litlu í lokin að komast áfram,“ sagði Andri Snær við Akureyri.net um sigurleikinn. „Það vantaði örlítið meiri klókindi sóknarlega til að klára dæmið en byrjunin fór í raun með sénsinn okkar. Það var virkilega sterkt að vinna leikinn úr því sem komið var en auðvitað er svekkjandi að hugsa til þess að við hefðum getað gert enn betur og þá hefðum við mögulega farið áfram, það munaði ekki miklu.“

Spænska liðið vann fyrri leikinn, 22:18, á laugardaginn en KA/Þór sigraði með eins marks mun, 21:20, í gær.

Andri sagðist „ótrúlega ánægður með varnarleikinn“ gegn CB Elche; „stelpurnar börðust og leystu þeirra aðgerðir, auk þess sem Matea var frábær í markinu. En glataðir boltar og dauðafæri sem við klikkuðum á reyndust okkur dýrkeypt þar sem við töpuðum einvíginu með þremur mörkum. Ég er hinsvegar afar stoltur af liðinu þar sem við gáfum allt í þetta og út úr þessu tökum við mikla reynslu sem á að nýtast okkur í framhaldinu,“ sagði Andri Snær.

„Það er metnaðarfullt hjá félaginu að taka þátt í Evrópukeppninni og fyrir leikmenn, þjálfara og stjórn eru fullt af tækifærum til að sjá hvað við getum gert til að bæta okkur enn frekar.“

„Stelpurnar okkar“ í Elche – MYNDIR

KA/Þór sigraði en er fallið úr keppni

Matea Lonac frábær en KA/Þór tapaði