Fara í efni
Þór

Andrea verður ekki áfram með Växjö

Andrea Mist Pálsdóttir fyrir leik með Växjö í Svíþjóð. Ljósmynd: Guðmundur Svansson.

Knattspyrnukonan Andrea Mist Pálsdóttir leikur ekki áfram með Växjö, sem féll úr efstu deild í Svíþjóð í haust.

Andrea, sem varð 23 ára í síðasta mánuði, samdi fyrir tímabilið til tveggja ára en í samningnum var ákvæði þess efnis að hún gæti farið á brott ef liðið félli úr deildinni. Andrea nýtti sér það og verður laus allra mála um áramót.

„Mér þykir eiginlega ömurlegt að þurfa að rifta samningnum því mér finnst mjög gott að vera hérna, en næst efsta deild í Svíþjóð er bara ekki nógu góð,“ sagði Andrea við Akureyri.net í dag. Hún stefnir eðlilega hærra.

„Það gerði enginn ráð fyrir því að Växjö myndi falla. Liðið varð í fimmta sæti sumarið áður og hér eru margir góðir leikmenn. Í liðinu eru til dæmis þrjár úr byrjunarliði Finnlands sem er á leið á EM og margar mjög efnilegar stelpur. Okkur gekk bara rosalega illa að skora.“

Liðið varð lang neðst í deildinni og litlu breytti þótt tveir nýir framherjar bættust í hópinn um mitt sumar.

Andrea er bærilega sátt við eigin frammistöðu í sumar. „Ég spilaði nánast alltaf nema alveg í byrjun tímabilsins og svo síðustu leikina.“ Hún lék á miðjunni, var ýmist aftasti miðjumaður eða sá fremsti.

Ekki liggur ljóst fyrir hvar Andrea Mist leikur á næsta keppnistímabili. „Ég get vel hugsað mér að spila áfram í Svíþjóð. Umboðsmaðurinn minn er að skoða eitthvað en svo getur vel verið að ég komi heim til Íslands og spili þar. Það kemur bara í ljós.“