Fara í efni
Þór

Andrea semur til tveggja ára í Svíþjóð

Andrea Mist Pálsdóttir, fyrir miðju, fagnar marki fyrir Þór/KA gegn Keflavík sumarið 2019. Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir, til vinstri, og Stephany Mayor Gutierrez samfagna Andreu. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Andrea Mist Pálsdóttir, knattspyrnukona frá Akureyri, samdi í dag við sænska úrvalsdeildarliðið Växjö til tveggja ára.

„Ég sagði í viðtali fyrir þremur vikum að mig hafi dreymt um að spila í efstu deild í Svíþjóð frá því ég var lítil, saklaus fótboltastelpa og svo nokkrum dögum seinna kemur þetta tilboð! Ég bjóst ekki við þessu núna, en er að sjálfsögðu himinlifandi,“ sagði Andrea við Akureyri.net. „Um leið og tilboðið kom vissi ég hver ákvörðunin yrði. Ég er ótrúlega spennt og get ekki beðið eftir því að sýna mig og sanna í Svíþjóð. Þetta er heldur betur skref fram á við á ferlinum,“ segir Andrea.

Växjö varð í sjötta sæti af 12 liðum í sænsku úrvalsdeildinni á síðasta keppnistímabili.

Andrea, sem verður 23 ára á árinu, lék með Þór í yngri flokkunum og fékk tækifæri með meistaraflokki Þórs/KA 16 ára, sumarið 2014. Hún á að baki alls 109 leiki með liðinu í Íslandsmóti og bikarkeppni og 13 með FH í fyrrasumar. Hún hefur tekið þátt í alls 127 leikjum á Íslandsmóti, bikarkeppni, Evrópukeppni og um nafnbótina Meistari meistaranna. Andrea hefur gert 22 mörk í þessum leikjum.

Andrea gekk til liðs við ítalska félagið Orobica haustið 2019 en kom heim í fyrravor og samdi þá við FH. Hún lék með Hafnarfjarðarliðinu síðasta sumar en var á dögunum lánuð til Breiðabliks út þessa leiktíð.

Þess má geta að bandaríska stúlkan, Madeline Gotta, sem lék með Þór/KA síðasta sumar, hefur þegar samið við Växjö.