Fara í efni
Þór

Aldís Ásta semur til næstu tveggja ára

Elvar Jónsteinsson, stjórnarmaður hjá KA/Þór, og Aldís Ásta Heimisdóttir, handsala samninginn í gær. Ljósmynd af heimasíðu KA.

Aldís Ásta Heimisdóttir, einn Íslandsmeistara KA/Þórs í handbolta,  fagnar 23 ára afmæli í dag. Hún hélt upp á daginn í gær með því að skrifa undir nýjan samning við liðið til næstu tveggja ára.

Vonandi fær Aldís Ásta aðra afmælisgjöf í dag þegar KA/Þór sækir Valsmenn heim í Reykjavík í síðustu umferð Olís deildarinnar.  KA/Þór er í öðru sæti, einu stigi á undan Val, en lið Fram er orðið deildarmeistari. Tvö efstu liðin komast beint í fjögurra liða úrslit keppninnar um Íslandsmeistaratitilinn en næstu fjögur leika um tvö sæti. 

„Aldís sem er uppalin hjá KA/Þór er algjör lykilmaður í liðinu hvort sem er í sókn eða vörn. Hún lék sína fyrstu A-landsleiki fyrir Íslands hönd í vetur og gerði sín fyrstu landsliðsmörk í leik gegn Sviss,“ sagði á heimasíðu KA í gær.

„Aldís [...]steig snemma sín fyrstu skref í meistaraflokki en það var tímabilið 2014-2015 og er hún því þrátt fyrir ungan aldur komin með þó nokkra reynslu. Hún hefur nú leikið 158 leiki fyrir KA/Þór og ljóst að þeir verða enn fleiri á næstu árum.“

Nánar um leikinn við Val seinna í dag.