Fara í efni
Þór

Arnór Þór og Oddur komnir af stað og unnu

Arnór Þór Gunnarsson og Oddur Gretarsson á HM í Egyptalandi í síðasta mánuði. Ljósmynd: Ívar Benediktsson.

Akureyringarnir í þýsku 1. deildinni í handbolta, Arnór Þór Gunnarsson og Oddur Gretarsson, gerðu báðir tvö mörk og fögnuðu sigri þegar keppni hófst á nýjan leik í gær eftir HM-fríið.

Arnór Þór og félagar í Bergischer unnu Minden á útivelli, 36:29, en Oddur og samherjar hans í Balingen – Weilstetten fengu Coburg í heimsókn og önnu átta marka sigur, 34:26. Bergischer fór upp í sjötta sæti deildarinnar, er með 18 stig eftir 16 leiki en Oddur og félagar eru í 15. sæti með 11 stig eftir 17 leiki. Tuttugu lið eru í deildinni.

Arnór glímdi við meiðsli á HM og gat ekki tekið þátt í síðustu leikjunum og hefur farið varlega undanfarið. Hann gerði bæði mörkin úr víti í gær; kom inn á til að taka vítin en lék ekki að öðru leyti. „Ég er allur að koma til og er orðinn leikfær, finnst mér. Við eigum annan leik strax á sunnudaginn,“ sagði Arnór við Akureyri.net í morgun.