Fara í efni
Þór

Að reisa hús, parket skemmist undir berum himni

Kæru lesendur. Í þessari grein vísa ég í uppbyggingarsamning Akureyrarbæjar og Íþróttafélagsins Þórs með myndum. Í þessum samningi efndi Þór allt sitt og tók inn annað félag inn á svæði sitt með loforðum um uppbyggingu í staðinn.

Á meðan þið lesið þetta, viljið þið endilega hugsa um hvernig ykkur myndi líða ef ég gerði við ykkur samning um að smíða mjög flott íbúðarhús ykkar frá grunni, gegn því að fá að byggja litla stakstæða íbúð í garðinum. En þegar þið kæmuð heim þá vantaði þakið á húsið og parketið á gólfin. Litlu íbúðina í garðinum hins vegar hafði ég byggt og hún fer ekki neitt. Ég fer svo bara í að byggja næsta flotta hús annars staðar í bænum og fullklára allt þar enda er það mun mikilvægara en ykkar íbúð. Pælið í alvöru í þessu…

En eins og sagt var í Gettu betur forðum daga… við sjáum mynd:

Og svo sjáum við aðra mynd:

og þá þriðju

Ég spyr því, hvenær er tími efnda? Sú mannvirkjaskýrsla sem samþykkt var árið 2019, eins meingölluð og hún nú er, tekur auðvitað ekki tillit til þessarar framkvæmdar enda átti henni að vera löngu lokið áður en fólk fór í gerð þeirrar skýrslu. Nánar tiltekið fjórum árum áður.

Nú er kominn tími til að hætta að segja við okkur Þórsara að við látum eins og fórnarlömb eða að við eigum að einbeita okkur að okkur sjálfum og aðra eins vitleysu, sem ég bara hér með frábið mér.

Eru menn í alvöru hissa á að félagsmenn í Þór séu mjög sárir, félagið lét undir önnur félög 22.000 fermetra af landsvæði en fékk svo ekki einu sinni nálægt því sem var lofað í staðinn. Loforð sem voru algjört lykilatriði þegar félagið lét svæði sitt undir starfsemi annarra félaga. Aftur að samlíkingunni, hvernig liði ykkur ef ég notaði alltaf litlu íbúðina mína úti í garði á meðan þið væruð með dúk yfir íbúðinni í stað þaksins sem ég lofaði, en dúkurinn auðvitað lekur þannig að ódýra parketið sem þið splæstuð í til að hafa eitthvað á gólfinu skemmist í rakanum. Þið þyrftuð að horfa á þessa litlu íbúð úti í garði daglega en reyna að notast við hitt hálfkláraða dæmið, ykkar eigið hús, eftir bestu getu. Svo þegar þið kvartið, þá er ykkur bara sagt að vera svolítið stór og hætta þessu væli. Það sé hvort sem er ofmetið að hafa flott gólfefni og hvað þá þak.

Hvort fjármununum sem áttu að fara í þá uppbyggingu verði varið með akkúrat þeim hætti sem á er kveðið í samningnum hér ofar er svo annað mál sem aðalstjórn Þórs ásamt bænum þarf að taka ákvörðun um. Það má vera að breyta þurfi um staðsetningar, tegundir mannvirkja og slíkt, en alveg má ljóst vera að félagið á svo sannarlega rétt á því að komandi bæjarstjórn efni gerða samninga forvera sinna og það algjörlega óháð mannvirkjaskýrslu sem kom út eins og áður sagði löngu eftir að þessum verkefnum átti að vera lokið.

Íþróttafélagið Þór er stórt og öflugt félag sem er í örum vexti og á skilið að meiri virðing sé borin fyrir starfseminni en nú er raunin.

Jón Stefán Jónsson er Þórsari og áhugamaður um íþróttaaðstöðu