Fara í efni
Þór

Á brattann að sækja hjá okkar fólki á vellinum

Tryggvi Snær Hlinason, Oddur Gretarsson, Sandra María Jessen, Arnór Þór Gunnarsson og Sveinbjörn Pétursson.

Hvorki gekk né rak hjá „okkar fólki“ á íþróttavöllum útlandsins í gær. Tryggvi Snær Hlinason, Arnór Þór Gunnarsson, Oddur Gretarsson og Sveinbjörn Pétursson töpuðu allir, lið Söndru Maríu Jessen vann að vísu en hún lék ekki með vegna meiðsla.

Sandra María sneri sig á ökkla á æfingu á fimmtudaginn og kom því ekkert við sögu þegar Bayer Leverkusen vann SC Freiburg 2:1 á heimavelli í þýsku 1. deildinni í fótbolta í gær. Leverkusen er í fimmta sæti deildarinnar.

Tryggvi Snær og félagar í Zaragoza töpuðu á útivelli fyrir Monbus Obra, 102:91, í spænsku 1. deildinni í körfubolta. Tryggi lék í 22,44 mín., skoraði 4 stig og tók 5 fráköst. Zaragoza er því aðeins með fjögur stig sem fyrr, að loknum 15 leikjum.

Bergischer tapaði fyrir Rhein-Neckar Löwen, 24:23, á útivelli í þýsku 1. deildinni í handbolta. Arnór Þór gerði aðeins eitt mark, úr víti, en klúðraði tveimur vítum. Hann sat á varamannabekknum allan tímann, nema þegar hann skundaði inn á völlinn til að taka víti. 

Löwen komst mest fimm mörkum yfir, 13:8, en staðan í hálfleik var 13:9. „Þeir voru betri í fyrri hálfleik og við í raun heppnir að vera ekki sex til átta mörkum undir í hálfleik. Við vorum hins vegar flottir í seinni hálfleik, það dugði ekki til en var tæpt,“ sagði Arnór við Akureyri.net í gærkvöldi.

„Það er auðvitað ekki nógu gott að skora bara úr einu víti af þremur en það þýðir ekkert að væla enda leikur strax á miðvikudaginn sem við þurfum að vera klárir í. Ég þarf að vera tilbúinn að spila 60 mínútur þá. Það eru margir leikir í desember og allir þurfa að vera ferskir.“

Oddur Gretarsson og samherjar í Balingen fengu Fuchse Berlin í heimsókn í þýsku 1. deildinni handbolta og gestirnir unnu öruggan sigur, 28:19. Oddur gerði tvö mörk, bæði úr víti.

Þá steinlágu Sveinbjörn Pétursson og félagar í Aue á útivelli, 34:25, fyrir Lübeck-Schwartau í þýsku 2. deildinni í handbolta. Sveinbjörn varði fjögur skot á tæpum 22 mínútum og náði sér ekki á strik frekar en aðrir í liðinu. Rúnar Sigtryggsson er tímabundið við stjórnvölinn hjá Aue vegna veikinda aðalþjálfarans.