Fara í efni
Þór

101 Akureyri! Þórsarar loksins af stað á ný

Júlíus Orri Ágústsson í fyrsta og eina leik vetrarins til þessa, gegn Keflvíkingum í Höllinni. Júlíus verður frá vegna meiðsla á næstunni. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Þórsarar hefja keppni að nýju í kvöld í efstu deild Íslandsmótsins í körfubolta, Dominos deildinni, þegar þeir sækja Grindvíkinga heim. Skammt er stórra högga á milli því strax á sunnudaginn koma bikarmeistarar Stjörnunnar svo í heimsókn í Höllina.

Bjarki Ármann Oddsson tók við þjálfun liðsins í haust eftir að Andy Johnston hætti. Þá var einum leik lokið; Þór tapaði fyrir Keflavík í Höllinni á Akureyri en svo var skellt í lás vegna Covid.

Í dag er 101 dagur liðinn síðan liðið lék síðast. Bjarki Ármann var spurður hver staðan á liðinu væri eftir svo langt hlé.

„Ég held að liðið komi ágætlega undan þessu 101 daga leikjafríi. Það er einungis um mánuður síðan við máttum hefja æfingar og þær hafa verið vel nýttar. Nýr þjálfari og nýjar áherslur og leikmenn hafa þurft að aðlagast hratt. Líklegast verður einhver „haustbragur“ á liðinu en það á eflaust við um öll lið.“

Bjarki segir æfingar hafa gengið vel. „Það er engin óskastaða að taka við liði á miðju tímabili en svo breyttist allt skyndilega og núna eru öll lið í sömu stöðu. Það eru rúmlega 100 dagar milli leikja, æfingabann og svo hraðmót. Þetta verður mikil áskorun en að sama skapi mjög spennandi áskorun.“

Júlíus Orri Ágústsson, sá stórefnilegi drengur og fyrirliði Þórs, glímir við meiðsli og verður frá á næstunni. „Eitthvað er um meiðsli og eymsli í hópnum eins og gengur. En verst er að Júlíus Orri er líklegast frá að minnsta kosti fram í mars og er það skarð fyrir skildi.“

Þórsarar mæta Grindvíkingum í kvöld sem fyrr segir. Í eina leik vetrarins til þessa sigruðu þeir nýliða Hattar frá Egilsstöðum, 101:94.

„Grindvíkingar eru með sterka hefð og öflugan hóp leiddir áfram af þjálfara þeirra og fyrrum Þórsaranum Daníel Guðna Guðmundssyni. Það er gríðarleg tilhlökkun í hópnum mínum að byrja að spila og við ætlum að njóta þess sama hverjir andstæðingarnir verða,“ sagði Bjarki Ármann Oddsson.

Leikurinn í Grindavík í kvöld hefst klukkan 18.15 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.