Fara í efni
Þór

10.000 manns í bænum vegna N1 mótsins

Einu marki af mörgum fagnað í gær, á fyrsta degi N1 mótsins. Þarna eru leikmenn Aftureldingar úr Mosfellsbæ á ferð. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Gera má ráð fyrir að um 10.000 manns séu komnir til Akureyrar vegna N1 móts KA í knattspyrnu sem hófst í gær. Íbúar bæjarins eru 20.000 þannig að tímabundin fjölgun í bænum er veruleg eins og mörg undanfarin ár vegna mótsins.

Keppendur á N1 mótinu, þar sem leikmenn 5. aldursflokks etja kappi, eru um 2.000 en gríðarlegur fjöldi foreldra og annarra ættmenna fylgir strákunum. Leikirnir verða alls 911 og vegna framkvæmda við nýjan gervigrasvöll KA er ekki hægt að nýta nema hluta svæðisins. Sakir þess er einnig spilað á gamla Akureyrarvellinum við Hólabraut og á svæði Þórs í Glerárhverfi; strákarnir voru á ferðinni á Þórssvæðinu í gær og verða aftur í dag en á morgun fyllist svæðið síðan af eldri kynslóðum knattspyrnumanna þegar árlegt Pollamót Samskipa og Þórs hefst þar. Á Pollamótið eru 65 lið skráð til leiks og þátttakendur um 800.

Ekki er hægt að segja að veðrið hafi leikið við Akureyringa og gesti þeirra síðustu daga; norðanátt hefur verið í boði með tilheyrandi kulda og ekki sést til sólar. Hins vegar er spáð hlýnandi veðri á morgun og gamla, góða Akureyrarveðrið – sól og blíða – ætti að vera komið heim á ný á laugardag! Bæði mót renna þá sitt skeið með tilheyrandi gleðskap. Þess má geta að Pollamóti Samskipa lýkur með Pallaballi í Boganum eins og undanfarin ár, þar sem Páll Óskar Hjálmtýsson mun trylla lýðinn.