Frá fundinum í Hofi í gær. Myndir af vef Kennarasambands Íslands.
„Ómálefnalegur launamunur milli opinbera og almenna markaðarins hefur haft alvarlegar afleiðingar í för með sér og leitt til skorts á menntuðum kennurum á öllum skólastigum. Við þeirri stöðu þarf að bregðast með því að jafna laun milli markaða og fjárfesta þannig í kennurum til hagsbóta fyrir komandi kynslóðir.“
Þetta er meðal þess sem kemur fram í ályktun sem samþykkt var einróma á baráttafundi kennara í Hofi á Akureyri í gær þar sem um 300 kennarar voru saman komnir. Sagt er frá fundinum á
vef Kennarasambands Íslands.
Fundurinn skorar jafnframt á samninganefndir sveitarfélaga og ríkis að standa við gefin loforð og tryggja að launa félagsmanna Kennarasambandsins standist samanburð við laun sérfræðinga á almennum markaði.
Ávörp fluttu Jónína Hauksdóttir, varaformaður KÍ, Jón Ágúst Eyjólfsson, kennari í Síðuseli, Dagmar Ólína Gunnlaugsdóttir, kennari í Brekkuskóla, og Einar Brynjólfsson, kennari í VMA.
Ályktun fundarins er svohljóðandi:
Félagsmenn KÍ á Norðurlandi leggja áherslu á að staðið sé við gerða samninga. Haustið 2016 var undirritað samkomulag um jöfnun lífeyrisréttinda og launa milli almenna og opinbera markaðarins. Strax ári síðar höfðu lífeyrisréttindi launþega á almennum og opinberum vinnumarkaði verið jöfnuð með tilheyrandi skerðingum á lífeyri opinberra starfsmanna, þar með talið kennara. Í framhaldinu átti að fara af stað vinna um jöfnun launa milli markaða og átti hún að taka 6-10 ár. Ekkert bólar þó enn á þeirri vinnu, nú 8 árum síðar. Þrátt fyrir gefin loforð virðist hið opinbera, hvort sem er ríki eða sveitarfélög, engan áhuga hafa á að semja um launaleiðréttingu enda þótt laun kennara hafi dregist aftur úr öðrum sérfræðingum. Aðgerðarleysi samninganefnda hins opinbera verður að teljast í meira lagi undarlegt þegar rúmar þrjár vikur eru liðnar af verkfallsaðgerðum kennara.
Ómálefnalegur launamunur milli opinbera og almenna markaðarins hefur haft alvarlegar afleiðingar í för með sér og leitt til skorts á menntuðum kennurum á öllum skólastigum. Við þeirri stöðu þarf að bregðast með því að jafna laun milli markaða og fjárfesta þannig í kennurum til hagsbóta fyrir komandi kynslóðir. Baráttufundur félagsmanna Kennarasambands Íslands í Hofi, þann 21. nóvember 2024, skorar á samninganefndir hins opinbera, bæði ríkis og sveitarfélaga, að standa við gefin loforð og tryggja að laun félagsfólks KÍ standist samanburð við laun sérfræðinga á almennum markaði.