Fara í efni
Sveitarstjórnarmál

Svona gætu aldraðir svindlað á lífeyriskerfinu ef ... ?

Ég lá veikur. Það var kveikt á útvarpinu. Þar talaði kona um lífeyrismál. Afsakið að ég get með engu móti fundið þáttinn aftur og man ekki nafn konunnar en hún var vafalaust vel tengd inn í lífeyriskerfið. Og því fengin til að varpa ljósi á þetta margflókna fyrirbæri.

Meðal annars vék hún að þeirri staðreynd að áunnum lífeyrisréttindum verður ekki skipt með öðrum (maka eða sambúðarmanni) þegar 65 ára aldri er náð.

Ástæðan?

Jú, sagði konan, til að draga úr hættu á að svindlað sé á kerfinu.

Hvernig þá (og haldið ykkur nú)?

Til dæmis ef annar sambúðaraðilinn eða makinn er dauðvona, útskýrði konan, stendur þessi leið opin fram í andlátið væru ekki þessi aldursmörk.

Ég veit að forsvarsmenn lífeyrissjóðanna hafa ætíð brugðist hart gegn öllum hugmyndum um að sjóðsfélagar ættu ef til vill að eiga iðgjöld sín. Þetta er tryggingasjóður, hefur svarið verið. Sú trygging er að vísu dýru verði keypt, að minnsta kosti stundum, en látum það vera.

En getum við ekki fallist á að eftirlifandi maki eða sambúðaraðili haldi áfram að njóta góðs af lífeyrisréttindum hins látna ektamaka og ástvinar? Eða telja oddvitar lífeyriskerfins réttlætinu þjónað með greiðslu makalífeyris í fimm ár? Þessi árakvóti virðist mér svipaður hjá öllum lífeyrissjóðum og yfirleitt eru þeir sammála um að makalífeyrir skuli aldrei vera nema helmingur þess sem hinn látni hafði áunnið sér. Og þegar frá líður bara helmingur þess helmings í að minnsta kosti tvö ár af þeim fimm sem makalífeyrir er greiddur.

Ég spyr: Er ekki sjálfsagt réttlætismál að sambúðarfólk, gift eða ógift, njóti óskertra lífeyrisréttinda maka síns fram í andlát beggja?

Með þökk fyrir birtinguna

Jón Hjaltason er sagnfræðingur