Fara í efni
Sveitarstjórnarmál

Svo rís um aldir árið hvurt um sig

Áramótakveðja Ásthildar Sturludóttur bæjarstjóra á Akureyri sem birt var á heimasíðu bæjarins í dag.

Líðandi ár hefur verið viðburðaríkt. Segja má að hver vika, hver mánuður, hafi fært okkur skrefinu nær því að festa Akureyrarbæ í sessi sem eitt framsæknasta sveitarfélag landsins. Við gætum að kostnaði, sýnum ráðdeild og stefnum öll að settu marki, sem er að Akureyri, Hrísey og Grímsey séu ávallt í öndvegi hvernig sem á það er litið.

Framkvæmdir og fjölgun

Á síðustu misserum hefur íbúum fjölgað umtalsvert. Von bráðar verðum við orðin 20.000 og engin teikn eru á lofti um annað en að íbúum sveitarfélagsins haldi áfram að fjölga með stigvaxandi hraða á næstu árum.

Enda er bjartsýnin ríkjandi hér um slóðir. Framkvæmdir í nýjum hverfum ganga vel og eftirspurn eftir húsnæði endurspeglast í hækkandi fasteignaverði. Holtahverfi byggist hratt upp og undirbúningur framkvæmda í Móahverfi gengur vel. Einnig er ánægjulegt að nú loksins eru að hefjast framkvæmdir í miðbænum sem ég er sannfærð um að munu bæta allt skipulagið á þessum dýrmætu reitum og gera bæinn okkar um leið mun meira aðlaðandi.

Nýtt fólk, nýjar áherslur

Ný bæjarstjórn tók við eftir kosningar í vor. Meirihlutasamstarf náðist með L-lista, Miðflokki og Sjálfstæðisflokki. Mikil endurnýjun varð í hópi bæjarfulltrúa. Aðeins fjögur af ellefu hafa reynslu af setu í bæjarstjórn en allt þetta fólk er áhugasamt um rekstur bæjarins, fylgið sér og helgar krafta sína af miklum heilindum störfum í þágu bæjarbúa.

Um leið og ég fagna atorku og einurð nýrra bæjarfulltrúa vil ég þakka þeim sem hurfu til annarra verka fyrir frábært samstarf á síðasta kjörtímabili. Þau Guðmundur Baldvin Guðmundsson, Ingibjörg Isaksen, Gunnar Gíslason, Eva Hrund Einarsdóttir, Þórhallur Jónsson, Sóley Björk Stefánsdóttir, Gunnfríður Elín Hreiðarsdóttir og Heimir Haraldsson hafa öll lagt sitt af mörkum og með þeim var gott að vinna. Ég vil þakka þessu fólki óeigingjörn störf í þágu sveitarfélagsins.

Jákvæðar breytingar í rekstrinum

Rekstur Akureyrarbæjar hefur verið í járnum síðustu árin og undir lok ársins 2021 blasti við okkur heldur þung staða þegar komið var að gerð fjárhagsáætlunar fyrir þetta ár. Ljóst var að grípa þyrfti til einhverra ráða og með samhentu átaki, ráðdeild og harðfylgi, hefur bæjarfulltrúum og starfsfólki sveitarfélagsins tekst að snúa vörn í sókn.

Farið var ofan í hvern einasta rekstrarlið og leitað leiða til að gera betur. Á sama tíma var ráðist í umfangsmiklar stjórnsýslubreytingar með það að markmiði að einfalda reksturinn, bæta þjónustu og lækka rekstrarkostnað. Segja má að heilt yfir hafi markmiðin náðst. Sem dæmi má nefna að fækkað hefur verið í yfirstjórn með sameiningu sviða og almennum stöðugildum hefur einnig fækkað. Það markmið náðist með því að færa til verkefni og ráða ekki í þær stöður sem losnuðu nema brýna nauðsyn bæri til.

Það var þó vitaskuld við því að búast að eitt og annað í þjónustu sveitarfélagsins kynni að falla á milli skips og bryggju þegar störf væru lögð niður en stóra myndin færir okkur þó heim sanninn um að sveitarfélagið veitir almennt góða þjónustu og við leggjum að sjálfsögðu höfuðáherslu á að lögbundnum verkefnum sé sinnt af kostgæfni.

Litli fiskimaðurinn eftir Knut Skinnerland. Styttan stendur við Menningarhúsið Hof og var gjöf frá norska vinabænum Álasundi á 100 ára kaupstaðarafmæli Akureyrar árið 1962. Ljósmynd: María Helena Tryggvadóttir.

Bætt þjónusta við viðkvæmustu hópana

Mikið ánægjuefni var að nú undir lok árs náðist loks árangur í samtali sveitarfélaga landsins við ríkið um aukin framlög til málaflokks fatlaðs fólks. Ríkið hækkar nú framlag til reksturs málaflokksins um 5 milljarða króna en þessi rekstur hefur verið okkur afar þungur í skauti fjárhagslega um langt árabil. Þjónusta við fatlaða er eitt af grunnhlutverkum sveitarfélaga og um leið eitt mannfrekasta verkefnið.

Í fjárhagsáætlun næstu ára er gert ráð fyrir að byggja og endurbæta búsetukjarna fyrir fatlað fólk á Akureyri. Ráðist verður í stækkun og nútímavæðingu búsetukjarnans við Hafnarstræti og nýr búsetukjarni mun rísa við Nonnahaga. Eins höfum við átt í samtali við ríkið um byggingu nýs húsnæðis fyrir öryggisvistun sem Akureyrarbær starfrækir fyrir ríkið. Þá stendur til að bæta við húsnæði í kjallara Þórunnarstrætis 99 fyrir skammtímavistun fatlaðs fólks en þörfin fyrir aukið pláss fyrir skammtímavistun eykst ár frá ári. Hér má hvergi hvika og það á að vera einn helsti metnaður hvers sveitarfélags að veita okkar viðkvæmustu hópum eins góða þjónustu og völ er á hverju sinni.

Tengjum okkur við tímann

Tíminn er skrýtin skrúfa sem hefur verið mörgum hugsuðum og skáldum hugleikinn um aldir alda. Jónas okkar Hallgrímsson orti meðal annars:

Svo rís um aldir árið hvurt um sig,
eilífðar lítið blóm í skini hreinu.
Mér er það svo sem ekki neitt í neinu,
því tíminn vill ei tengja sig við mig.

Jónas átti sem kunnugt er ekki alltaf náðuga daga og hefur e.t.v. fundist hann sjálfur vera nokkuð upp á kant við samtíð sína eins og síðasta línan hér að ofan ber með sér. Við hjá Akureyrarbæ viljum hins vegar vera í fullkomnum takti við tímann og tengja okkur við það sem hann hefur fram að færa.

Því er margt gert til að nýta stafræna þróun sem best í þágu íbúa sveitarfélagsins. Nýtt smáforrit, Akureyrarappið, er komið í tilraunafasa en það mun nýtast vel til betri útfærslu á ýmsum þjónustuþáttum. Við höfum gefið út Lýðheilsukort fyrir fjölskyldur sem hvetur fólk til heilbrigðara lífernis með því að veita aðgang að Hlíðarfjalli, Sundlaug Akureyrar og Skautahöllinni á sanngjörnu verði, rafræn afgreiðsla erinda hefur vaxið hröðum skrefum í þjónustugátt bæjarins og svo mætti áfram telja. Við ætlum okkur stóra hluti á þessu sviði því framtíðin er stafræn og tíminn vill tengja sig við okkur.

Ég vil þakka gott samstarf við íbúa sveitarfélagsins, starfsfólk þess og bæjarfulltrúa á árinu sem er að líða. Megi nýtt ár færa okkur öllum meiri velsæld, frið og kærleika. Gleðilegt nýtt ár.