Fara í efni
Sveitarstjórnarmál

Sverre Andreas sækist eftir fjórða sætinu

Sverre Andreas Jakobsson, fyrrverandi landsliðsmaður í handbolta, hefur ákveðið að sækjast eftir fjórða sæti á lista Framsóknarflokksins fyrir bæjarstjórnarkosningarnar í vor. Akureyri.net greindi frá því á dögunum að Sverre lægi undir feldi og niðurstaðan var sú að taka ekki stærra skref að þessu sinni. Hann taldi það ekki fara saman að vera ofar á lista og sinna áfram starfi þjónustustjóra fyrirtækjaviðskipta á Norður- og Austurlandi hjá Arion banka. 

Einn Framsóknarmaður hefur lýst yfir framboði í oddvitasætið fyrir sveitarstjórnarkosningarnar eins og Akureyri.net hefur áður greint frá, Sunna Hlín Jóhannesdóttir

Framsóknarmenn ætla að halda opið prófkjör 12. mars þar sem kosið verður um fimm efstu sætin. 

  • Framsóknarflokkurinn á nú tvo fulltrúa í bæjarstjórn Akureyrar. Guðmundur Baldvin Guðmundsson og Ingibjörg Ólöf Isaksen skipuðu tvö efstu sætin fyrir fjórum árum, Guðmundur Baldvin hættir í bæjarstjórn í vor eftir 12 ára setu og Ingibjörg hætti í haust eftir að hún var kjörin á Alþingi. Gunnfríður Elín Hreiðarsdóttir, sem tók sæti Ingibjargar í bæjarstjórn í haust, mun ekki gefa kost á sér í eitt af efstu sætunum.