Píratar hafa kynnt framboðslistann
Hrafndís Bára Einarsdóttir, leikari og viðburðastjóri, hlaut í mars kjör sem oddviti lista Pírata fyrir bæjarstjórnarkosningarnar í vor, þegar prófkjöri þeirra lauk. Í dag var upplýst að Karl Vinther hönnuður verður í öðru sæti og þriðja sæti skipar Erna Sigrún Hallgrímsdóttir en hún starfar sem liðveitandi samhliða námi. Heiðurssætið skipar Einar Brynjólfsson sem var oddviti kjördæmisins í síðastliðnum alþingiskosningum.
„Framboðið hyggst einbeita sér að frekara gagnsæi í stjórnsýslunni og auknu íbúalýðræði svo tryggja megi að ákvarðanir séu teknar í sátt við samfélagið. Bæta skal þjónustu við börn og eldra fólk og auka almennt jafnræði í samfélaginu. Huga þarf betur að jaðarhópum og gera Akureyri að stað þar sem allur mannauður er metinn að verðleikum. Hópurinn mun birta stefnuskrá sína á næstu vikum,“ segir í tilkynningu frá Pírötum.
Listinn í heild sinni:
- Hrafndís Bára Einarsdóttir, leikkona og viðburðastýra
- Karl Halldór Vinther Reynisson, hönnuður
- Erna Sigrún Hallgrímsdóttir, öryrki/liðveitandi/nemi
- Embla Björk Hróadóttir, rafeindavirki
- Narfi Storm Sólrúnar, nemi
- Lína Björg Sigurgísladóttir, starfsmaður í verslun
- Halldór Arason, kennari
- Þórkatla Eggerz Tinnudóttir, barþjónn
- Reynir Karlsson, rafvirkjameistari
- Sævar Þór Halldórsson, náttúrulandfræðingur
- Einar A. Brynjólfsson, menntaskólakennari