Hreinsistöð fráveitu, svör við fyrirspurn Ólafs Kjartanssonar
Norðurorka og Ólafur Kjartansson hafa verið í samskiptum um hreinsistöð fráveitu síðan hún var tekin í rekstur. Þáverandi stjórnarformaður Norðurorku, Ingibjörg Isaksen, svaraði fyrirspurn Ólafs um sama efni ítarlega í tölvupósti í ágúst 2021. Eins var forstjóri í samskiptum við Ólaf, síðast í janúar sl. þar sem Ólafi var boðið að koma í heimsókn, kynna sér málið og lesa gögn frá verkfræðistofunni Eflu varðandi hönnunarforsendur. Ólafur kom reyndar ekki og hefur frekar valið að spyrja opinberlega í aðdraganda kosninga, mögulega til að gera stjórn tortryggilega á þeim tímamótum. Á sama hátt lætur Ólafur að því liggja að hann hafi ekki fengið svör við fyrirspurnum sínum.
Við erum sammála Ólafi að bygging hreinsistöðvar fráveitu eru mikil tímamót og mikið framfaraspor fyrir samfélagið við Eyjafjörð og mikilvægt að læra af þeirri reynslu sem myndast þegar byggð eru slík mannvirki. Í því sambandi hafa fjölmargir starfsmenn annarra fráveitna sem eru í byggingahugleiðingum komið í hreinsistöðina og kynnt sér reksturinn og þá reynslu sem komin er.
Það er misskilningur hjá Ólafi að byggingin standi lægra miðað við sjávarmál en við væntum eða gerðum ráð fyrir. Hitt er rétt hjá Ólafi að við hefðum gjarnan viljað enda með vélbúnaðinn hærra en raunin varð. Vélbúnaðurinn er hannaður á þann veg að hækki sjávarstaða, eins og reikna má með í framtíðinni, þá verði vélbúnaðurinn hækkaður til að tryggja þrýsting svo fráveituvatnið renni greiðlega út um 400 metra rásina. Áætlað var að slík hækkun yrði mögulega framkvæmd við endurnýjun á vélbúnaðinum eftir u.þ.b. 15 ár frá gangsetningu stöðvarinnar. Við hæðarstetningu vélbúnaðarins var reynt að hafa passandi hæð sem myndi skila greiðlegu útrennsli, en ekki umfram það, til að lágmarka orkunotkun í stöðinni.
Nokkur atriði eru tiltekin varðandi hæðarsetningu búnaðarins og þess að rennsli um álagsútrásina er meiri en áætlað var. Í fyrsta lagi virðist eftir samantekt á mælingum að magn fráveituvatns sé oftar umfram þær raunmælingar sem gerðar voru á árunum 2014-2015. Í öðru lagi endar útrásarlögnin á meira dýpi en séð var fyrir. Í þriðja lagi var stuðst við skýrslu frá Siglingamálastofnun um sjávarstöðu á Akureyri en reyndin er sú að sjávarhæðir á Akureyri eru almennt hærri en þar kemur fram.
Varðandi aðra og þriðju spurningu Ólafs er svarið að rennsli um álagsútrásina er ekki mælt, hvorki magn né tími rennslis.
Álagsútrásin, sem er 90 metra löng, stenst skilyrði reglugerða og rennsli um hana er hreinsað á nákvæmlega sama hátt og rennsli um aðalútrásina. Álagsútrásin er hluti af venjubundnum rekstri hreinsistöðvarinnar.
Varðandi fjórðu spurninguna þá hefur ekki verið gerð kostnaðaráætlun um þá framkvæmd að hækka vélbúnaðinn. Við gerum enn ráð fyrir að nýta líftíma vélbúnaðarins áður en hann verður hækkaður eins og í upphafi.
Hreinsistöðin hefur reynst vel og síun er meiri en við áætluðum, bæði hvað varðar magn og ekki síður hvað varðar svifagnir og líffræðilega hreinsun. Fjörurnar við Akureyri eru mun hreinni en áður var, ekki síst hafsvæðið við útrásina eins og fram kemur í töflu yfir mælingar á heimasíðu Norðurorku.
Verkefni okkar er áfram að draga úr því gríðarlega magni af „rusli“ sem hent er í klósettið en við höfum ítrekað bent á að klósettið er ekki ruslafata. Ennfremur er verkefni næstu áratuga að draga úr magni regns- og ofanvatns inn í fráveitukerfið með því að tvöfalda fráveitukerfið í eldri bæjarhlutum og leiða ofanvatn ofan bæjarins til sjávar án viðkomu í fráveitukerfinu.
Í stóra samhenginu er það ekki stórmál að á álagstímum svo sem í leysingum og við hásævi renni takmarkaður hluti hreinsað fráveituvatns um álagsútrásina.
Við hjá Norðurorku erum stolt af hreinsistöðinni og rekstri hennar. Norðurorka lyfti með byggingu hennar „Grettistaki“ í umhverfismálum Eyfirðinga.
Fyrir hönd stjórnar Norðurorku.
Helgi Jóhannesson
Helgi Jóhannesson er forstjóri Norðurorku.