Fara í efni
Sveitarstjórnarmál

Höldum einbeitingu – höldum áfram!

Á Akureyri er afar fjölbreytt íþróttastarf sem leitt er áfram af öflugum íþróttafélögum. Íþróttafélögin gegna mikilvægu hlutverki í samfélaginu okkar, hvort sem það er vegna forvarnargildis íþrótta fyrir börn og ungmenni, aukinar lýðheilsu og heilsueflingar eða þeirra tekna sem starf íþróttafélaganna skapar fyrir bæinn í viðburðahaldi. Samfylkingin á Akureyri ætlar að halda áfram uppbyggingu íþróttamannvirkja íþróttafélaganna okkar í samræmi við skýrslu um forgangsröðun þessara verkefna sem allir sitjandi bæjarfulltrúar samþykktu fyrir rétt rúmlega 18 mánuðum síðan.

Í aðdraganda kosninga 14. maí næstkomandi hafa heyrst raddir frá íþróttafélögum í bænum að rétt sé að endurskoða þessa forgangsröðun og endurskoða þessa forgangsröðun og breyta í samræmi við þeirra óskir og þarfir, og færast þannig fram fyrir í röðinni. Þetta er skiljanlegt, enda flest íþróttafélög bæjarins í þörf fyrir betri aðstöðu fyrir sína starfsemi. En af þeirri einföldu ástæðu að Akureyrarbær ræður eingöngu við tiltekið magn fjárfestinga á hverju ári var ráðist í framangreinda vinnu við að forgangsraða uppbyggingu fyrir íþróttafélögin. Akureyrarbær þarf einnig á ári hverju að fjárfesta öðru en uppbyggingu íþróttamannvirkja t.d. í skólahúsnæði og húsnæði fyrir fatlað fólk svo eitthvað sé nefnt.

Framboð sem lofa nú að endurskoða þessa nýsamþykktu forgangsröðun sem samþykkt var af öllum sitjandi bæjarfulltrúum fyrir skömmu síðan þurfa að mínu mati að svara nokkrum spurningum.

  • Fyrsta spurningin er þessi: Hvaða verkefni á að færa aftar í röðina? Afrit af svörum við þessari spurningu má m.a. senda á Knattspyrnufélag Akureyrar, Golfklúbb Akureyrar og Skíðafélag Akureyrar, en næstu þrjú verkefni í samþykktri forgangsröðun eru hjá þessum félögum.
  • Önnur spurningin er þessi: Hversu lengi er ásættanlegt að setja uppbyggingu íþróttamannvirkja í bænum á bið á meðan forgangsröðin er endurskoðuð? Það er óumflýjanlegt að algert stopp verði á framkvæmdum meðan kjörnir fulltrúar ráða ráðum sínum um ný og endurskoðuð næstu skref.
  • Þriðja spurningin er svo til þeirra sem lofa að gera bara meira og hraðar: Á hvaða öðrum sviðum bæjarins á að draga úr fjárfestingum? Afrit af þessum svörum má t.d. senda á fatlað fólk í bænum og aðstandendur þeirra, og foreldra með börn á leikskólaaldri svo einhver dæmi séu tekin.

Á næsta kjörtímabili ætlum við í Samfylkingunni að vinna að næstu verkefnum í umræddri forgangsröðun eins fljótt og verða má og ganga frá samkomulagi í upphafi kjörtímabilsins við KA um byggingu þjónustuhúss og framkvæmdir undirbúnar í framhaldinu. Þá vill Samfylkingin hefja undirbúning og í kjölfarið framkvæmdir á þjónustuhúsi í Hlíðarfjalli og vetraraðstöðu hjá Golfklúbbi Akureyrar. Í kjölfarið vill Samfylkingin að hafist verði handa við undirbúning á 50 metra innisundlaug í samræmi við þarfir Sundfélagsins Óðins og grunnskólanna í bænum vegna skólasunds, ásamt því að hefja undirbúning vegna frekari uppbyggingu á félagssvæði Þórs. Allt í samræmi við samþykkta forgangsröðun um uppbyggingu íþróttamannvirkja á Akureyri.

Samfylkingin vill halda stefnu, halda einbeitingu og halda áfram – fyrir íþróttir á Akureyri.

Áfram Akureyri – fyrir okkur öll!

Sindri Kristjánsson skipar 2. sæti á lista Samfylkingarinnar á Akureyri fyrir kosningarnar 14. maí.