Fara í efni
Sveitarstjórnarmál

Frjálshyggjumeirihluti á Akureyri?

Það urðu tíðindi á Akureyri þegar hægri flokkum gafst tækifæri til að mynda meirihluta án aðkomu mið og vinstri flokka. Í fyrsta sinn á þessari öld ef undan er skilinn hreini meirihluti L-lista árið 2010. Mikið gekk á við myndun þessa meirhluta og svikabrigsl og nöpuryrði gengu flokka á milli. L - listinn hafði stór orð um svik Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og viðræðum var slitið. Sjálfstæðisflokkur sakaði L-listann um frekju og yfirgang. Þá var blásið til meirhluta Framsóknar, Miðflokks, Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks. Samfylking sleit þeim viðræðum fljótlega því hugmyndir hinna flokkanna í viðkæmum málflokkum gekk ekki upp þar á bæ. Þá var blásið til viðræðna í þriðja sinn. L-listinn kallaður til leiks í annað sinn og Framsókn kastað út þó Sjálfstæðis og Miðflokkur hefðu lofað þeim ævarandi tryggð. Sannalega situr Framsókn eftir, reynslunni ríkari og með hnífasett hægri flokkanna í bakinu.

Þessi tilraun tókst og úr varð frjálshyggumeirihluti hægri íhaldsflokkanna og L-listans sem hefur hæfileika kamelljónsins að skipta lit eftir umhverfinu. Meirhlutasamkomulagið er síðan frekar almennt orðað plagg þar sem risastór mál úr kosningaloforðum eru horfin og ekkert á þau minnst. Verður fróðlegt að taka það saman við tækifæri.

Sannarlega er þörf á að minnihlutinn haldi vel á spöðum á kjörtímabilinu. Ljóst er þegar úthlutun embætta og nefnda að L-listinn hefur þar tögl og hagldir. Þær nefndir og ráð sem Miðflokkur og Sjálfstæðisflokkur eru að mestu áhrifalausir í stjórn bæjarins, þau völd hafa farið til L-listans, líklega sem agnið sem varð til að landa þeim eftir alla svikaumræðuna í upphafi. L-listinn fékk völd á kostnað hinna flokkanna og nokkuð merkilegt hvað Sjálfstæðiflokkur var ákafur að komast í meirihluta, þar var miklu fórnað. Miðflokkurinn dinglar með enda litlu að tapa á þeim bænum. Eini fulltrúi Miðflokks í meirihluta á landinu?

Næstu fjögur ár verða lærdómsrík fyrir bæjarbúa. Allir vita fyrir hvað hægri flokkarnir Sjálfstæðisflokkur og Miðflokkur standa. Í reynd tveir Sjálfstæðisflokkar þar sem lýðræðisást og íbúasamráð er ekki alveg í fyrsta sæti. L-listinn er kamelljón eins og nefnt var hér að framan.

Ég vil samt sem áður óska hægri flokkunum til hamingju með nýjan meirihluta og vona sannarlega að hagsmunir hins almenna bæjarbúa verði í fyrsta sæti hjá sambræðningum. Við fengum nóg af verktakalýðræði á síðasta kjörtímabili.

Það besta sem sjáanlegt er með fullri vissu, er endurráðning bæjarstjórans, óska henni velfarnaðar á nýju kjörtímabili.

Jón Ingi Cæsarsson er Akureyringur.