Fara í efni
Sveitarstjórnarmál

Félagsaðstaða eldri borgara er sprungin

Við viljum öll lifa góðu lífi, tengjast fjölskyldu og ættingjum, eignast vini og vera heilsuhraust. Við viljum öðlast almenna þekkingu og aðra kunnáttu og sérvisku, sem við svo skiptumst á að deila og þiggja okkar á milli í samfélaginu. Við vitum líka fyrir víst að við sem einstaklingar njótum þess að gera mismunandi hluti, stunda okkar áhugamál sem og að láta drauma okkar rætast. Sumir elska að vera í fjölmenni á meðan aðrir vilja nálgast minni hópa eða einstaklinga. Heilt yfir er félagsleg tenging mjög mikilvæg og rannsóknir sýna að einstaklingar án hennar upplifa mun meiri vanlíðan en aðrir.

Þekkir þú eldri borgara?

Ég geri fastlega ráð fyrir því enda á hugtakið við einstaklinga sem eru á aldrinum 60 ára eða eldri. Það er í rauninni svo teygjanlegt hugtak að strangt til tekið gætu þrjár kynslóðir sömu fjölskyldu verið í félagi eldri borgara. Þá erum við að tala um að sá yngsti er 60 ára, foreldrar þeirra um 80 ára og afar og ömmur þeirra yngstu um 100 ára. Kannski ekki miklar líkur á því en þarna höfum við þrjár ólíkar kynslóðir og allt “eldri borgarar” !

Svo sannarlega ólíkir aldurshópar en ein af mínum uppáhaldssetningum er að “Aldur er afstæður” og hefur ekkert með ástand þitt eða áhuga á hinu og þessu að gera. Það er því mikilvægt að átta sig á því að það er hópur eldri borgara sem heldur áfram að lifa lífinu eins og það gerði áður en það náði þeim aldri að vera kallaðir eldri borgarar. Þetta er sama fólkið með sama lífstíl og áður, iðkar heilsurækt, útivist og sund, spilar og syngur með vinum enda einstaklingar með góða eða sæmilega heilsu, geta að mestu séð um sig sjálfir og eru gjarna í einhverskonar störfum eða nefndum þar sem það hefur sömu hæfni til vinnu og áður.

Hlakkar þú til að verða eldri borgari?

Það er hugsanlega óhætt að segja að það sé á markmiðablaðinu hjá okkur flestum að verða eldri. Ég persónulega bind allar mínar vonir við að ná þeim aldri að kallast eldri borgari. Mottóið mitt er að “lifa lífinu lifandi” og ætli ég verði ekki líka að viðurkenna að ég er yfir meðallagi virk og þarf alltaf að hafa eitthvað fyrir stafni og aðra einstaklinga í kringum mig. Mér finnst gaman að kynnast nýju fólki, fara inn í nýjar áskoranir og prófa nýja hluti. Guð hjálpi mér ef það verður ekki ennþá í boði árið 2040.

Íslendingar eru líkt og flestar aðrar þjóðir að eldast og það má meðal annars þakka framförum í læknavísindum, betri heilsu og betri lífsgæðum. Tölur Hagstofunnar sýna að fólki eldra en 65 ára hérna á Íslandi hefur fjölgað um 70 % frá aldamótum og eins og fram hefur áður komið í nýlega skrifuðum greinum þá er samkvæmt mannfjöldaspá Hagstofu Íslands gert ráð fyrir að árið 2038 verði 18, 6% þjóðarinnar 67 ára eða eldri en árið 2018 var þetta hlutfall 12%.

Fjölgun eldri borgara er því á næsta leiti og felur í sér ýmsar áskoranir fyrir samfélagið.

Þar ber fyrst að nefna að bæta þarf húsnæðismál og félagsaðstöðu fyrir eldri borgara en Akureyrarbær rekur tvær félagsmiðstöðvar, það eru Birta í Bugðusíðu og Salka í Víðilundi.

Það er ljótt að skilja útundan. Ekki satt?

Um síðustu áramót voru félagsmenn EBAK rétt tæplega 2000 einstaklingar og hefur þeim fjölgað jafnt og þétt á undanförnum árum. Megnið af starfsemi EBAK er á vegum nefnda félagsins en um 70 sjálfboðaliðar eru í stjórn, nefndum, klúbbum og ráðum félagsins auk allra annarra sem taka þátt í störfunum á einn eða annan hátt. Hlutverk félagsins er að vinna að félags- og hagsmunamálum eldri borgara og það býður einnig upp á margskonar afþreyingu með skemmtanahaldi, ferðalögum og fræðslu, ásamt heilsueflingu og námskeiðahaldi í hinu og þessu. Þessir viðburðir eru alla jafna gríðalega vinsælir og mjög mikilvægir fyrir marga einstaklinga sem eiga kannski ekki marga aðra að. Það sem sló mig mest er að ég komst að því að það gerist reglulega að það þarf að vísa fólki frá á vinsælustu viðburðum þar sem aðalsalur félagsins er einungis um 150 fermetrar að stærð og getur því aðeins tekið á móti um 90 manns í sæti. NÍUTÍU MANNS….þið munið það eru 2000 félagsmenn hérna á Akureyri.

Eins fyllast námskeið mjög fljótt þar sem herbergisaðstaða er ekki næginlega stór eða vel skipulögð og jafnvel sum hver gluggalaus. Þróunin á starfseminni er því mjög erfið vegna húsnæðiseklu og lélegra nýtingamöguleika og því mikilvægt að fara að vinna í því að leita lausna sem fyrst þar sem þessi aðstaða sem fyrir er, er löngu sprungin.

Það þarf því að að skipuleggja búsetuúrræði sem allra fyrst og tengja þjónustukjarna við leigu- og eignaríbúðir á svæðinu enda segir í samningi við Akureyrarbæ að bærinn og EBAK vilji „taka höndum saman til að eldri borgarar eigi kost á eins góðu félags- og tómstundastarfi og þörf er fyrir hverju sinni, til að viðhalda andlegri, félagslegri og líkamlegri færni þeirra, til að njóta efri áranna, eftir vilja og getu hvers og eins“.

Við vitum öll að framtíðin er framundan, undirbúum hana vel og förum að byggja og bæta þessa aðstöðu enda er besta leiðin til að spá fyrir um framtíðina sú að skapa hana sjálfur.

Birna Baldursdóttir er íþróttafræðingur og skipar 7. sæti L-listans fyrir bæjarstjórnarkosningarnar 14. maí.