Fara í efni
Sveitarstjórnarmál

Eru tímamót hjá Norðurorku?

Til núverandi og fyrrverandi stjórnar Norðurorku.

Hugleiðingar um bætta stjórnsýslu og spurningar til stjórnar NO og Ingibjargar Isaksen fráfarandi stjórnarformanns.

Gagnsæi er æ oftar nefnt þegar fjallað er um góða stjórnsýslu. Gagnsæi og góð upplýsingagjöf eykur skilning á því sem gerist, hvetur fólk til þess að vanda sig og hjálpar til þess að miðla reynslu og þekkingu.

Þegar vel tekst til í verkefnum má sækja þangað gagnlegar fyrirmyndir að góðum verkum og ef mistök verða er mikilvægast að greina þau vel og opinskátt svo læra megi af þeim til að minnka líkurnar á því að þau verði endurtekin.

Nú er stjórn NO sem er endurnýjuð að hluta til að hefja nýtt starfsár og af því tilefni vek ég í nafni gegnsæis aftur máls á verkefnum stjórnar vegna nýframkvæmdanna í Sandgerðisbót.

Í Sandgerðisbót er nýlegt mannvirki sem er hluti af fráveitukerfi Akureyrar. Þar er síun á skolpinu frá bænum sem skilur frá rusl sem lent hefur saman við skolpið. Mér skilst að síubúnaðurinn taki allt sem er 2-3 mm og stærra í burtu áður en skolpið rennur áfram út í sjó. Þetta er mikið framfaraskref frá því sem áður var. Frá hreinsistöðinni eru tvær lagnir, gamla stutta útrásarlögnin sem þarna var fyrir og ný 400 m lögn út á rúmlega 40 m dýpi sem er ætlað að koma síuðu skolpinu betur frá landi svo gerlamengun við fjörur Akureyrar verði minni en hún var þegar gamla útrásin var notuð.

Nýja útrásarlögnin er nefnd í greinargerð gildandi aðalskipulags sem mikilvægt atriði í umhverfismálum bæjarins.

Þegar gangsetja átti stöðina kom í ljós að stöðin stendur lægra miðað við sjávarmál en dugir til þess að skolpið renni alltaf út nýju útrásina. Það fer eftir sjávarföllum hvora leiðina skolpið fer. Sjófuglar hnappast saman á yfirborðinu yfir enda virku útrásarinnar og það sést svo vel að það má sjá á loftmyndum map.is hvor útrásin var virk þegar myndirnar voru teknar. Einhverstaðar í hönnun mannvirkisins gerðist eitthvað sem varð til þess útkoman varð ekki sú sem aðalskipulagið gerir ráð fyrir.

Ég hef áður sent inn fyrirspurnir vegna þessa og nú spyr ég aftur spurninga sem ekki fengust svör við:

  • Hvaða hæðarmælingar voru forsenda að hæðarsetningu stöðvarinnar og hvernig var farið að því að sannreyna þær?
  • Hve mikinn hluta tímans hefur þurft að nota gömlu útrásina í Sandgerðisbót vegna þessa galla í hæðarsetningu stöðvarinnar?
  • Hve mikinn hluta tímans hefur þurft að nota gömlu útrásina í Sandgerðisbót vegna viðhaldsvinnu, bilana eða óvenjulegs yfirálags?
  • Hvað kostar að gera það sem þarf til að ekki þurfi að nota gömlu útrásina í venjulegum rekstri?

Ólafur Kjartansson er vélvirkjameistari og virkur í starfi VG á Akureyri.