Fara í efni
Sveitarstjórnarmál

Aukið fjármagn frá ríkinu breytir stöðunni

  • Akureyri.net bauð oddvitum allra flokka í bæjarstjórn Akureyrar að skrifa grein til birtingar fyrir seinni umræðu um fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar sem fram fer á morgun. Hér skrifar oddviti Framsóknar.

Þann 6. desember verður seinni umræða um fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar fyrir árið 2023. Fjárhagsáætlunin hefur tekið nokkuð miklum breytingum milli umræðna sem ræðst einna helst af því að von er á auknum tekjum úr jöfnunarsjóði vegna aukins framlags ríkisins í málaflokk fatlaðra. Ráðherra sveitarstjórnarmála, Sigurður Ingi Jóhannsson, hafði gefið sveitarfélögum von um aukið fjármagn milli umræðna og stóð við sín orð. Við þetta hefur komist betra jafnvægi á reksturinn og hyllir í sjálfbærari rekstur í A-hluta sveitarfélagsins við lok kjörtímabilsins. Bæjarfulltrúar Framsóknar gagnrýndu einmitt í fyrri umræðum að ekki skyldi lengur stefnt að sjálfbærni 2025 eins og markmið síðustu bæjarstjórnar voru og einsýnt að verði lagaleg krafa í nánustu framtíð.

Skortur á vönduðum vinnubrögðum

Meirihlutinn hefur haldið spilunum þétt að sér þegar kemur að fyrirhuguðum framkvæmdum á kjörtímabilinu. Ekki er að sjá að hann ætli að fara í viðbyggingu við þjónustukjarna eldri borgara í Bugðusíðu né huga að þörfum þessa sístækkandi hóps í uppbyggingu íþróttamannvirkja. Ákvarðanir um framkvæmdir sem tengjast lögbundnum verkefnum eru byggðar á þarfagreiningu og faglegum vinnubrögðum en þegar kemur að öðrum ákvörðunum þá gagnrýnum við ógagnsætt og ófaglegt ferli. Lítið sem ekkert samráð hefur verið í viðeigandi fagráðum og enga þarfagreiningu að finna eða kostnaðargreiningu á auknum rekstrarkostnaði.

Fjárhagsbyrðir heimilanna minnka

Í fyrri umræðu var gert ráð fyrir 10% flötum hækkunum á gjaldskrám, fyrir utan nokkrar undantekningar, sem er bæði verðbólguhvetjandi og ekki til þess fallið að vernda heimilin. Meirihlutinn hefur hlustað á þá gagnrýni og dregið úr hækkunum. Ekki var heldur gert ráð fyrir lækkunum á fasteignaskatti til að koma til móts við gríðarlegar hækkanir á fasteignamati. Bæjarfulltrúar Framsóknar töluðu fyrir því í fyrri umræðu og í greinaskrifum. Við fögnum því að bæjarráð hefur nú afgreitt frá sér lækkun álagningarhlutfalls fasteignaskatts á íbúðarhúsnæði en eftir standa óbreyttar hækkanir fasteignagjalda gagnvart atvinnuhúsnæði.

Aukið fjármagn sett í málefni barna en skortur á framtíðarsýn

Í málefnaskrá Framsóknar í vor var lögð áhersla á framsókn í velferð og verðmætasköpun án þess þó að taka þátt í miklu loforðakapphlaupi. Meirihlutanum til hróss þá er verið að gefa í í málefnum barna og leggja aukið fjármagn til félagsþjónustunnar og aukins stuðnings í fræðslumálum. Einnig erum við ánægð með að aukið fjármagn verði sett í skipulagsmál. Umhverfis- og loftslagsmál virðast þó ekki í forgangi hjá meirihlutanum.

Það sem við söknum þó er skortur á framtíðarsýn. Hvernig ætlum við að efla bæinn og auka fjölbreytni í atvinnulífinu til framtíðar og þannig auka verðmætasköpun og tekjur. Bæjarfulltrúar Framsóknar leggja því eftirfarandi tillögu fram á bæjarstjórnarfundi á morgun:

  • Akureyrarbær er að hefja þátttöku í gerð nýrrar borgarstefnu þar sem m.a. verður horft til uppbyggingu Akureyrar sem svæðisborgar sem geti boðið upp á aukna fjölbreytni í þjónustu, menningu og atvinnutækifærum. Samhliða þeirri vinnu er mikilvægt að við horfum til framtíðar og setjum okkur markmið um hvert við viljum stefna sem sveitarfélag til lengri tíma. Eitt af þeim verkefnum er að vinna metnaðarfulla stefnu í verðmætasköpun í samstarfi við atvinnulífið, stofnanir, frumkvöðla, íþróttahreyfinguna og ferðaþjónustuaðila. Það er mikilvægt að þess sjáist skýrari merki í fjárhagsáætlun að bæjarstjórn Akureyrarbæjar sé tilbúin í þessa vinnu. Bæjarfulltrúar Framsóknar leggja því til að sett verði fjármagn í mótun framtíðarsýnar um fjölbreytta atvinnuuppbyggingu.

Sunna Hlín Jóhannesdóttir oddviti Framsóknar á Akureyri