Ágreiningur og of miklar kröfur
Heimir Örn Árnason, oddviti sjálfstæðismanna í bæjarstjórn Akureyrar, segir að kröfur L-listans hafi verið of miklar í viðræðum um myndun meirihluta í bæjarstjórn og ágreiningur um of mörg mál. Þess vegna hafi fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks ákveðið að snúa sér annað. Heimir staðfestir að flokkarnir tveir hafi byrjað að ræða við Samfylkinguna og Miðflokkinn í hádeginu í dag og að fulltrúar flokkanna fjögurra muni hittast á formlegum fundi á morgun.
„Við fórum gríðarlega jákvæð í þessar viðræður og héldum að við myndum klára þetta á nokkrum dögum, en skynjuðum fljótt að við værum ekki að tala saman á jafnréttisgrundvelli. Okkur leið eins og við ættum aldrei séns,“ sagði Heimir við Akureyri.net í kvöld.
L-listinn, Bæjarlisti Akureyrar, fékk þrjá bæjarfulltrúa í kosningunum á laugardaginn, Framsókn og Sjálfstæðisflokkur tvo hvor. Heimir bendir á að þrátt það hafi einungis munað 0,7% á fylgi L-listans og Sjálfstæðisflokksins svo ekki sé hægt að tala um stórsigur þess fyrrnefnda.
Halla Björk Reynisdóttir sagði við Akureyri.net í kvöld að L-listinn hefði viðrað þá hugmynd að fá bæði embætti formanns bæjarráðs og forseta bæjarstjórnar, sem væri vissulega óvenjulegt, en ekki hefði verið kominn fram neinn áhugi á þessum embættum frá flokkunum tveimur og L-listinn hefði alls ekki gert kröfu um hvort tveggja.
„Þetta var fyrsta boð frá þeim og okkur fannst ekki rétt að byrja á þessum nótum,“ segir Heimir Örn, spurður um þetta.
Spurður um það sem L-listafólk sagði í kvöld, að flokkarnir tveir hefðu svikið heiðursmannasamkomulag um að tala ekki við aðra á meðan viðræður við L-listann stæðu yfir, sagði Heimir: „Já og nei. Þegar forsendur bresta breytist ýmislegt. Það var okkar tilfinning frá fyrstu mínútu að þetta væri ekki á jafnréttisgrundvelli.“
Heimir nefndi fyrr ágreining um málefni. L-listafólk gerði ekki mikið úr þeim þætti í kvöld og sagði viðræður hafa verið rétt byrjaðar. Heimir er ekki sammála því. „Við funduðum í tvo klukkutíma á sunnudaginn og aftur í tvo tíma í gær,“ segir hann. Fulltrúar flokkanna hittumst þriðja sinni í kvöld, þar sem L-listanum var tilkynnt að Framsókn og Sjálfstæðisflokkur hefði ákveðið að slíta viðræðunum.