Fara í efni
Sveitarstjórnarmál

Að segja satt um málefni eldra fólks

Fyrr í vikunni birtist á Akureyri.net grein þar sem fullyrt er að Akureyrarbær hafi ekkert aðhafst í vinnu við aðgerðaráætlun í málefnum eldra fólks. Mér sem bæjarstjóra á Akureyri er skylt að leiðrétta það sem sett er þar fram.

Í fyrsta lagi skulum við átta okkur á því að sú aðgerðaráætlun sem vísað er til í greininni var samþykkt 2. desember sl. í bæjarráði Akureyrar og nær til alls ársins 2022. Af árinu eru varla liðnir fjórir mánuðir.

Bæjarstjórn samþykkti að leggja ríflega 20 milljónir króna í verkefnið. Það er því skýr vilji til að leggja áherslu á þessa áætlun og er innan við þriðjungur af áætluðum tíma til góðra verka liðinn. Við skulum því spyrja að leikslokum.

Á þeim tæplega fjórum mánuðum sem liðnir eru frá því áætlunin var samþykkt hafa töluverðar mannabreytingar verið hjá sveitarfélaginu og innleiðing á stjórnsýslubreytingum staðið yfir, m.a. hjá nýju fræðslu- og lýðheilsusviði þar sem þessi verkefni eru vistuð. Þar fyrir utan hafa óviðráðanleg veikindi af völdum Covid-19 og annarra vágesta sett strik í reikninginn og tafið ögn fyrir því að hægt væri að láta verkin tala. Starfsfólk Akureyrarbæjar er hins vegar dugmikið og lætur ekki óvænt áföll slá sig út af laginu. Því hefur talsverðu verið áorkað þvert á það sem fullyrt er í greininni.

Mér leiðist orðhengilsháttur en þær ávirðingar sem koma fram í margumræddri grein knýja mig til að fara í örfáum orðum yfir áætlun Akureyrarbæjar í málefnum eldra fólks, lið fyrir lið.

Aðgerðaráætlunin tekur til 13 verkefna en 12 verkefni voru samþykkt af bæjarráði og á að hefja vinnu við þau og klára á þessu ári. Staðan er eftirfarandi:

1. Kanna möguleikann á að bærinn verði aldursvænt samfélag

Vinna við verkefnið er hafin.

  • Samtal við Reykjavíkurborg hefur átt sér stað um stöðuna, kostnað og framgöngu verkefnisins. Frekari vinna við verkefnið er áætluð síðar á árinu.

2. Heilsueflandi félagsmiðstöðvar

Verkefnið er hafið og komið til framkvæmda.

  • Í félagsmiðstöðvunum er áfram boðið upp á leikfimi, boccia, léttar gönguferðir og Qigong. Fjölga á hreyfingarmöguleikum á næstunni og sett verður upp metnaðarfull sumardagskrá eins og síðastliðin tvö sumur.

3. Virk efri ár

Verkefnið er í undirbúningi.

  • Undirbúningur þessa verkefnis hefur tekið lengri tíma en við reiknuðum með. Samtal við stóru íþróttafélögin hefur átt sér stað sem og við Kópavog um besta fyrirkomulag verkefnisins. Niðurstaða er ekki komin úr því en ætlunin er að vinna málið áfram í samstarfi við íþróttafélögin og heilsueflingarfyrirtæki bæjarins. Þetta verkefni mætti vissulega vera komið lengra.

4. Hreystitæki fyrir fullorðna

Bæjarráð samþykkti ekki þennan hluta aðgerðaráætlunarinnar en vísaði verkefninu til umhverfis- og mannvirkjaráðs til frekari umræðu. Ekki er því gert ráð fyrir þessu verkefni í fjárhagsáætlun ársins 2022.

5. Upplýsingar um framboð á heilsueflingu á akureyri.is, sumar 2022

Verkefnið er hafið.

  • Þessi liður er í vinnslu og verður tilbúinn fljótlega.

6. Félagsleg og andleg heilsuefling

Verkefni hafið en komið mjög stutt á veg.

  • Hér má segja að Covid-19 hafi sett stórt strik í reikninginn. Oftar en einu sinni hafa viðburðir og ferðir verið blásnar af vegna Covid-19 og inflúensu og starfsmannaeklu samhliða því. Hins vegar er verið að skipuleggja viðburði í Birtu og Sölku sem áætlaðir eru fljótlega.

7. Betri næring, janúar 2022

Verkefnið er hafið.

  • Samtal er í gangi við þann aðila sem sér um heimsendan mat um að bæta upplýsingagjöf og innihaldslýsingar.

8. Hádegismatur auglýstur og kannað með að lækka kostnað, janúar 2022

Verkefni lokið.

  • Hádegismaturinn lækkaði úr 1.750 kr. í 1.650 kr. um áramót. Rétt er að taka fram að lækkunin er mun meiri því bæði hráefni og laun hafa hækkað mikið á síðustu árum. Félagsmiðstöðvarnar bjóða reglulega upp á pizzu og súpuhádegi sem hafa verið ágætlega sótt.

9. Mótttaka gesta félagsmiðstöðvanna

Verkefni hafið.

  • Innleiðingaráætlun er í vinnslu en töluverð fjölgun hefur orðið á aðsókn þá sérstaklega í Sölku. Veikindi og mannekla í félagsmiðstöðvunum eftir áramót hefur hins vegar sett strik í reikninginn.

10. Endurbætur á heimasíðu

Verkefni hafið og komið til framkvæmda.

  • Gert er ráð fyrir áframhaldandi vinnslu enda nauðsynlegt að vera sífellt að bæta upplýsingarnar.

11. Upplýsingar um þjónustu verði hægt að fá á einum stað

Verkefni lokið

  • Allir eiga nú að hringja í þjónustuver Akureyrarbæjar, 460 1000 og fá allar upplýsingar þar án þess að vera flutt milli skiptiborða. Er komið til framkvæmda.

12. Upplýsingablöð, vor 2022

Ekki komið á framkvæmdastig en undirbúningur hafinn.

13. Heilsuefling í heimaþjónustu, haust 2022

Ekki hafið

Starfsfólk Akureyrarbæjar leggur sig fram um að framfylgja af kostgæfni ákvörðunum pólitískra fulltrúa og skila góðu verki. Og sem sjá má af upptalningu minni að framan þá fer því víðs fjarri að ekkert hafi verið gert í aðgerðaráætlun í málefnum eldra fólks sem samþykkt var í bæjarráði snemma í desember síðastliðnum.

Í störfum mínum sem bæjarstjóri á Akureyri hef ég lagt mig fram um að hlusta eftir röddum þess mæta fólks sem lagði grunninn að því góða samfélagi sem við búum við árið 2022. Við skulum ekki halla réttu máli. Eldra fólk á það skilið af okkur sem viljum vinna Akureyri allt til heilla að við segjum ávallt satt þegar fjallað er um málefni þess. Að ekkert hafi verið gert er einfaldlega fjarri því að vera satt.

Ásthildur Sturludóttir er bæjarstjóri á Akureyri