Fara í efni
Sveitarstjórnarmál

„Að menn og kettir verði vinir á ný“

Í kvöldfréttum RUV rás 1 þann 22. 4. sagði bæjarfulltrúi á Akureyri að líklega verði umræður í bæjarstjórn fyrir lok kjörtímabilsins um nýlega samþykkt bæjarstjórnar um afnám lausagöngu katta á Akureyri 2025. Nú er það komið inn í auglýsta dagskrá næsta bæjarstjórnarfundar að þar skuli ræða lausagöngumálið.

Síðast í nefndu viðtali kom fram sú von að þessu ferli ljúki með því „að menn og kettir verði vinir á ný“

Til þess að sú vinátta geti orðið til þarf bæjarstjórn að vanda sig og gæta þess að umræðan verði vönduð og vel kynnt svo endanleg ákvörðun geti stuðst við góð og vel skýrð rök.

Ef rökin vantar stendur ákvörðunin á veikum grunni. Eðlilegast væri að nýta kynningarmöguleika samráðsferlis sem vettvang fyrir undirbúning ákvörðunar um reglur sem eru um gæludýrahald.

Þeir þættir sem að mínu mati verði að gaumgæfa vel eru þessir:

Reynslan af mismunandi útfærslum.

Náttúruvernd.

Jafnræðisregla stjórnsýslu.

Nágrannafriður.

Lýðheilsa.

Sóttvarnir.

Dýravelferð.

Reynslan af mismunandi útfærslum

Þarna vandast málið. Lausaganga katta hefur verið ráðandi nánast alla tíð. Langflestir Akureyringar eru samdauna ástandinu og hafa litla hugmynd um það hvað það er að fá frí frá óheftri umferð katta. Hríseyingar og Grímseyingar riðu samt á vaðið fyrir nokkrum áratugum og tóku upp aðra siði. Grímseyingar lögðu alfarið af allt kattahald í eyjunni vegna fuglalífsins og Hríseyingar lögðu af lausagöngu utanhúss. Ég hef ekkert orðið var við neina alvöru athugun á reynslu þeirra og úr því þarf að bæta.

Náttúruvernd

Náttúran skal alltaf njóta vafans“ Þetta er bein tilvitnun í yfirlýsingu sem er búin að vera í grunn stefnuskrá Vinstri Grænna frá upphafi. Það eru fleiri stjórnmálaflokkar sem eru að minnsta kosti farnir að taka þetta til athugunar. Umhverfisáhrif taminna og hálftaminna dýrategunda sem eru ekki hluti af upprunalegri náttúru geta verið umtalsverð. Það er mest áberandi í vistkerfum á eyjum utan meginlanda. Neikvæðar breytingar vegna þessara áhrifa á umhverfið verður að meta á fræðilegum grunni og stjórnvöldum ber skylda til þess að gera það sem þau geta til þess að lágmarka skaðann.

Jafnræðisregla stjórnsýslu

Þessi regla gerir ráð fyrir því að stjórnvöld gæti þess að forðast mismunun í reglusetningum og tilskipunum.

Nágrannafriður

Góður nágrannafriður er ein forsenda farsæls samfélags. Ef einn hópur telur sig verða fyrir verulegu ónæði og/eða ágangi vegna hegðunar einhvers annars hóps er mikilvægt að stjórnvöld komi til skjalanna með einhverju því sem tekur á ágreiningnum með skilvirkum hætti. Samanber ákvörðun um að banna galandi hana í þéttbýlinu.

Lýðheilsa

Ítrekað hefur það komið fram að samvistir við dýr og sú upplifun að fylgast með því sem gerist í náttúrunni geta haft mjög jákvæð áhrif á sálræna líðan fólks. Þarna geta yfirvöld komið til skjalanna með því að gæta vel að því að ánægjuefni eins verði ekki skemmd með tillitsleysi annars. Þar liggur vandinn m.a. í því að viðhorf og áherslur geta stangast á.

Sóttvarnir

Öll dýr geta borið með sér og dreift smitum og sjúkdómum af ýmsu tagi. Þar hafa stjórnvöld það hlutverk að afla sem bestra upplýsinga um það sem þarf að varast og fylgja því eftir með viðeigandi aðgerðum, fræðslu og reglum.

Dýravelferð

Nútíma dýravelferð segir einfaldlega að hegðun okkar megi ekki valda dýrum heilsuleysi, þjáningum og/eða kvalarfullum dauða. Þetta gildir jafnt um tamin og villt dýr og okkur leyfist ekki að taka eina tegund það langt út fyrir sviga að það fari að bitna illa á öðrum tegundum. Matvælastofnun er með nokkuð skýrar leiðbeiningar í boði sem eðlilegt er að hafa til hliðsjónar með öðru sem snertir dýravelferðina.

Ólafur Kjartansson er vélvirkjameistari og virkur í starfi VG á Akureyri.