Fara í efni
Sund

Tvær viðureignir SA og SFH um helgina

Stuðningsmenn SA á leik í úrslitakeppninni síðastliðið vor. Mynd: Skapti Hallgrímsson.

Áhugafólk um íshokkí fær sinn skammt hér á Akureyri um helgina þegar karlalið Skautafélags Hafnarfjarðar (SFH) mætir heimamönnum í SA Víkingum í tveimur leikjum í dag og á morgun. 

SFH á sér ekkert heimasvell og leikur því heimaleiki sína gegn SA í Skautahöllinni á Akureyri. Fyrri leikur helgarinnar er heimaleikur SFH, en sá seinni er heimaleikur Akureyrarliðsins. Þessi lið mættust í fyrsta skipti í sögunni fyrir rúmri viku og vann SA þar öruggan 6-1 sigur í fjörugum leik. Þó SFH sé nýtt félag og nýtt lið eru auðvitað kunnugleg nöfn á meðal íslensku leikmannanna, meðal annars leikmenn sem koma upphaflega úr röðum SA.

Fyrir leiki helgarinnar er SA í 3. sæti deildarinnar með 12 stig úr sex leikjum, en SFH í 4. sæti með eitt stig úr sex leikjum. SR og Fjölnir mætast einnig í dag, en SR er á toppnum með 15 stig úr átta leikjum og Fjölnir í 2. sæti með 14 stig úr átta leikjum.

  • Toppdeild karla í íshokkí
    Skautahöllin á Akureyri, laugardag kl. 16:45
    SFH - SA
  • Toppdeild karla í íshokkí
    Skautahöllin á Akureyri, sunnudag kl. 16:45
    SA - SFH