Fara í efni
Sund

SA-liðin stigalaus heim úr Laugardalnum

Mynd af Facebook síðu hokkídeildar SA

Íshokkílið Skautafélags Akureyar sóttu ekki gull í greipar Reykvíkinga í gær. Bæði lið mættu SR-ingum og máttu bæði þola tap.

Kvennalið félaganna mættust síðdegis í gær og þar þurfti SA á stigum að halda til að halda í við topplið Fjölnis í baráttu um deildarmeistaratitilinn. En lið Skautafélags Reykjavíkur sækir stöðugt í sig veðrið og er farið að gera sig gildandi gegn SA og Fjölni. Svo fór í dag að SR vann SA, 3-1. Það voru hins vegar norðanstúlkur í liðinu sem skoruðu tvö af þremur mörkum SR.

SR komst í 2-0 í fyrsta leikhlutanum með mörkum frá Ingu Rakel Aradóttur og Sögu Blöndal Sigurðardóttur. Annar leikhlutinn var markalaus, en Kolbrún Björnsdóttir minnkaði muninn um miðjan þriðja leikhlutann. Það dugði þó ekki því Zuzana Sliacka bætti við þriðja marki SR þegar um þrjár mínútur voru eftir. 

Fjölnir hefur nú fimm stiga forystu á toppi deildarinnar þegar öll liðin hafa leikið 14 leiki. Fjölnir hefur 28 stig, SA 23 stig og SR 12 stig. SA verður því að vinna báða leikina sem eftir eru og treysta á sigur SR gegn Fjölni.

Leikurinn var í beinu streymi á YouTube-rás Íshokkísambandsins og má sjá hann í spilaranum hér að neðan.

Leikirnir sem eftir eru í Toppdeild kvenna:

  • 1. mars. Fjölnir - SA
  • 4. mars: Fjölnir - SR
  • 8. mars: SA - SR

SR-ingar héldu hreinu

Karlalið SR og SA mættust í seinni leik gærdagsins, leik sem skipti SR-inga meira máli því þeir eru að berjast fyrir sæti í úrslitakeppninni, en lið SA hefur þegar tryggt sér efsta sætið og deildarmeistaratitilinn.

SR komst í 2-0 með mörkum Sölva Atlasonar í fyrstu tveimur leikhlutunum og Kári Arnarsson bætti þriðija markinu við í lokalotunni. SA tókst ekki að skora í leiknum og úrslitin 3-0.

SA er á toppi Toppdeildarinnar með 35 stig, SR fór upp í 2. sætið með sigrinum í kvöld, er með 29 stig og Fjölnir 27 stig. SA á tvo leiki eftir, en Fjölnir og SR einn.

Leikirnir sem eftir eru:

  • 1. mars: Fjölnir - SA
  • 8. mars: SA - SR

Leikurinn var í beinu streymi á YouTube-rás Íshokkísambandsins og hægt að horfa á hann í spilaranum hér að neðan.