Fara í efni
Sund

Ný könnun: 88% ánægð með að búa á Akureyri

Í nýrri könnun sem Gallup gerði á þjónustu sveitarfélaga kemur fram að 88% íbúa eru ánægð með að búa á Akureyri. Þetta kemur fram á vef sveitarfélagsins.

  • Mest ánægja mælist með sorphirðu, umhverfismál, aðstöðu til íþróttaiðkunar, þjónustu grunnskóla og þjónustu sveitarfélagsins almennt.
  • Óánægju gætir helst þegar spurt er um skipulagsmál, þjónustu við eldri borgara, barnafjölskyldur og fatlaða.

„Heilt yfir hafa litlar breytingar orðið á milli ára en mestar breytingar eru á viðhorfum til þjónustu grunnskóla sem eru jákvæðari nú en áður og þótt 36% segist frekar eða mjög óánægð með skipulagsmálin þá er það nokkru minna en árið áður þegar 42% kváðust vera frekar eða mjög óánægð. Þess má geta að mest hefur óánægja með skipulagsmál á Akureyri mælst á árunum 2008-2010 þegar allt að 54% bæjarbúa sögðust vera frekar eða mjög óánægð með þann málaflokk,“ segir á vef sveitarfélagsins.

Hlustum á raddir bæjarbúa

Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri gerir könnunina að umtalsefni í grein sem birtist á Akureyri.net í morgun.

„Heilt yfir er ég nokkuð sátt við niðurstöðurnar en legg ofuráherslu á að þeir málaflokkar þar sem óánægja mælist hvað mest verði teknir til gaumgæfilegrar skoðunar,“ segir Ásthildur í greininni og bætir við: „Til þess eru þjónustukannanir að starfsfólk sveitarfélagsins og pólitískir fulltrúar sjái hvar þarf að gera betur. Við þurfum alltaf að vera tilbúin að hlusta á raddir bæjarbúa.“

Bæjarstjórinn segir að umtalsverð óánægja með þjónustu við eldri borgara stingi í augu „og veldur mér bæði áhyggjum og heilabrotum. Um 48% eru annaðhvort frekar eða mjög ánægð, 26% taka ekki afstöðu en 26% segjast vera frekar eða mjög óánægð. Þessar niðurstöður eru alls ekki viðunandi. Hvað gæti skýrt þetta?“

Smellið hér til að sjá allar niðurstöðu könnunarinnar

Smellið hér til að lesa grein Ásthildar