Fara í efni
Sund

Airbus vél Icelandair kemur til Akureyrar

Airbus flugvélin nýja, Esja, lendir á Keflavíkurflugvelli í fyrsta skipti á þriðjudaginn var. Mynd: Icelandair

Glæný Airbus flugvél Icelandair fer í þjálfunarflug um landið á sunnudag og er gert ráð fyrir að hún lendi á Akureyri um klukkan 11 fyrir hádegi. Margir Akureyringar eru miklir flugáhugamenn og því rétt að tilkynna um komu vélarinnar.

Samkvæmt upplýsingum frá Icelandair gæti áætlunin breyst eins og oft er með þjálfunarflug. Áhugasömum er því bent á að best sé að fylgjast með á FlightRadar og slá þá inn flugnúmerið FI5100.

Esja – fyrsta Airbus flugvél í sögu Icelandair

Flugvélin er af gerðinni A321LR og er fyrsta Airbus flugvél í 87 ára sögu Icelandair. Hún er með skráningarnúmerið TF-IAA, ber nafnið Esja og kom til landsins í fyrsta sinn síðastliðinn þriðjudag. Icelandair á von á þremur vélum sömu tegundar til viðbótar fyrir sumarið 2025. 

Airbus flugvélarnar munu taka við af Boeing 757 vélunum sem hafa verið burðarásinn í flota Icelandair um áratugaskeið. Í vélunum eru 187 sæti, 22 á Saga Premium og 165 á almennu farrými. „Vélarnar eru búnar Pratt & Whitney GTF™ hreyflum. Þær eru af nýrri kynslóð sparneytinna flugvéla og munu þannig styðja við sjálfbærnivegferð félagsins en gert er ráð fyrir að þær séu allt að 30% sparneytnari en þær vélar sem þær taka við af og mun hljóðlátari,“ sagði í tilkynningu frá Icelandair þegar vélin kom til landsins. „Flugdrægi vélanna er 4.000 sjómílur eða 7.400 kílómetrar og munu þær því geta sinnt öllum áfangstöðum sem Boeing 757 vélar Icelandair hafa sinnt hingað til. Í framtíðinni mun félagið taka við enn langdrægari flugvélum, A321XLR, í takt við samning frá júlí 2023 um kaup á allt að 25 flugvélum.“

Þægindi voru höfð í fyrirrúmi við hönnun farþegarýmisins, að því er segir í tilkynningunni. „Vélarnar eru rúmgóðar og gott pláss er fyrir handfarangur, auk þess sem um borð eru þægileg sæti með góðu fótarými, öflugt þráðlaust net, sérhönnuð lýsing og glænýtt afþreyingarkerfi.“

Fyrsta farþegaflug nýju vélarinnar er áætlað til Stokkhólms 10. desember næstkomandi.

„Mikil tímamót“

„Dagurinn í dag markar mikil tímamót í sögu Icelandair. Með tilkomu Airbus flugvéla í flotann okkar munu skapast mikil tækifæri á næstu árum, ekki bara fyrir Icelandair heldur einnig fyrir Ísland sem ferðamannaland og tengimiðstöð í flugi milli Evrópu, Norður-Ameríku og jafnvel enn lengra. Við bindum miklar vonir við þessar öflugu, langdrægu og sparneytnu vélar og hlökkum til að bjóða farþega okkar velkomna um borð,“ sagði Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair þegar vélin kom til landsins. 

Benoît de Saint-Exupéry, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Airbus, var einnig í sjöunda himni. „Við erum stolt af því að sjá Airbus flugvél í litum Icelandair. A321LR er 30% sparneytnari og stuðlar þar af leiðandi að minni kolefnislosun en fyrri kynslóð sambærilegra flugvéla, auk þess sem hún er umtalsvert hljóðlátari. Þessi tímamót eru því í takt við okkar áherslur á gæði og nýsköpun í flugi,“ sagði hann. „Við erum þakklát Icelandair fyrir traustið og hlökkum til að styðja við áframhaldandi framþróun fyrirtækisins og framlag þess til íslensks samfélags.“