Fara í efni
Súlur Vertical

SA jafnaði metin í einvíginu gegn Fjölni

Mikil fagnaðarlæti brutust út hjá leikmönnum og stuðningsmönnum SA þegar sigurmarkið var skorað á fyrstu mínútu framlengingar. Mynd: RH

Annar leikur einvígis SA og Fjölnis um Íslandsmeistaratitilinn í íshokkí kvenna fór fram í Skautahöllinni á Akureyri í kvöld. Eftir að hafa tapað fyrsta leiknum sunnan heiða á þriðjudaginn, tókst SA að sigra í kvöld og jafna þar með metin í einvíginu. Það lið, sem er fyrra til að sigra þrjá leiki, vinnur einvígið og hlýtur bikarinn. Staðan er 1-1 eftir leik kvöldsins og næst verður keppt í Egilshöll á laugardaginn kemur.

Leikurinn fór fjöruglega af stað, en strax eftir tæpar 6 mínútur gerði Magdalena Sulova fyrsta mark leiksins fyrir SA. Fjölnir svaraði að bragði, en mínútu síðar skoraði Berglind Leifsdóttir og jafnaði leikinn. Fleiri mörk voru ekki skoruð í venjulegum leiktíma, en bæði lið áttu flotta spretti og góð færi. Helst ber að nefna þegar hin þrettán ára gamla Guðrún Ásta Valentine komst ein í gegn í öðrum leikhluta en markmaður Fjölnis, Karitas Halldórsdóttir sá við henni. 

Í blálok þriðja leikhluta var Sigrún Árnadóttir hjá Fjölni rekin í boxið fyrir óíþróttamannslega hegðun, en síðustu mínúturnar voru æsispennandi og sauð upp úr við mark Fjölnis. Venjulega væri spilað 3 á 3 í framlengingunni, en vegna þess að Fjölnir þurfti að hefja framlenginguna með tveggja mínútu brottvísun á bakinu var því breytt. Í stað þess að spila 3 á 2, var spilað 4 á 3. SA nýtti sér það vel að vera einni fleiri, og skoraði gullmarkið bókstaflega í fyrstu sókninni eftir yfirvegað spil upp völlinn. Það var Silvía Björgvinsdóttir sem kom pökknum í netið og SA konur fögnuðu gríðarlega, enda mikilvægt að ná að jafna stöðuna í einvíginu fyrir næsta leik, sem fer fram í Egilshöll á laugardaginn kemur.

Hvernig sem leikurinn fyrir sunnan um helgina fer, fáum við einn leik í viðbót á heimavelli, en sá verður spilaður á þriðjudagskvöldið kl. 19.30. 

Leikskýrslan á vef ÍHÍ

Leiknum var streymt á YouTube-rás Íshokkísambandsins og má sjá upptöku af honum í spilaranum.