Fara í efni
Snjókross

Íslandsmeistarar U18 – hitt SA liðið í 2. sæti

Íslandsmeistarar U18 í íshokkí, SA Víkingar. Mynd: sasport.is

Ungliðastarfið hjá íshokkídeild Skautafélags Akureyrar heldur áfram að gefa vel af sér, ekki aðeins með fjölmörgun ungum og efnilegum leikmönnum sem koma upp í meistaraflokkslið félagsins heldur hafa U18 lið félagsins gert það gott í gegnum tíðina og núna í vikunni bættis Íslandsmeistaratitill í safnið. Annað tveggja liða SA, Víkingar, vann í fyrrakvöld Íslandsmeistaratitilinn í flokki U18 og ekki nóg með það heldur varð hitt lið félagsins, Jötnar, í 2. sæti mótsins. 

Í frétt á vef Skautafélagsins kemur einnig fram að þessi góði árangur, að geta teflt fram tveimur öflugum liðum í U18 og taka tvö efstu sætin sé til marks um öflugt barna- og unglingastarf hjá íshokkídeildinni. Akureyri.net hefur reglulega flutt fréttir af fjölda fulltrúa SA í landsliðunum í íshokkí. Til dæmis voru bæði U18 landsliðin skipuð að meirihluta leikmönnum frá SA, 15 af 20 leikmönnum í kvennaliðinu og 14 af 20 í karlaliðinu.