Fara í efni
Smámunasafnið

Hver var Margrét – Af hverju Margrétarhagi?

SÖFNIN OKKAR – 56

Frá Héraðsskjalasafninu á Akureyri_ _ _

Akureyri.net heldur áfram að opna dyr safnanna í bænum lesendum til fróðleiks og skemmtunar. Það er gert vikulega, á fimmtudögum.

Í mars 2014 kom nafnanefnd Akureyrarbæjar saman til þess að fjalla um nöfn á götum í nýju hverfi, Hagahverfi. Á fundinum varð til listi með 12 götunöfnum, sem nefndin lagði til að notuð yrðu í hverfinu. Eins og bæjarbúar þekkja eru göturnar kenndar við fólk og við val þeirra hafði nefndin það m.a. að leiðarljósi að um væri að ræða kunna látna Akureyringa, sem bæri heiður vegna starfa fyrir bæjarsamfélagið og hefði með frægð sinni og verkum auglýst nafn bæjarins.

Margrétarhagi er kenndur við Margréti Schiöth eða Elise Margrethe Schiöth, konuna sem kenndi bæjarbúum að unna blómum og rækta þau.

Margrét var ein af stofnendum Lystigarðsfélags Akureyrar og frá árinu 1921 tók hún við forystu félagsins og allri umsjá garðsins fram til ársins 1953, en þá afhenti hún bænum garðinn að gjöf. Þar stendur í dag brjóstmynd af henni.

Margrét er fædd þann 31. júlí 1871 í Vejen á Jótlandi, 1899 flyst hún til Akureyrar og giftist Axel Schiöth og bjuggu þau að Hafnarstræti 23. Margrét hafði mikinn áhuga á garðrækt og fékk hún oft send að utan bæði fræ og plöntur sem hún plantaði í garðinum við húsið.

Var garðurinn hennar það glæsilegur að hann vakti athygli konungshjónanna Kristjáns X og Alexandrine drottningar þegar þau heimsóttu Akureyri árið 1926. Drottningin og Margrét héldu sambandi eftir það.

Á sjötugsafmæli Margrétar var hún kjörin heiðursborgari Akureyrarbæjar, fyrir það mikla og óeigingjarna starf sem hún vann í Lystigarðinum. Hér að neðan má sjá Heiðursborgarabréf sem er svohljóðandi:

Bæjarstjórn Akureyrar hefir á fundi sínum 29. júlí 1941 samþykkt svofellda ályktun:

Bæjarstjórn Akureyrar gerir sjer það ljóst, að hinn fyllsta heiður, er bæjarfjelagið getur látið einstökum borgara í tje, beri eigi að veita öðrum en þeim, er með æfistarfi sínu hefir áunnið sjer þakklæti og fölskvalausa virðingu bæjarbúa. Um leið og bæjarstjórnin lætur þetta álit sitt í ljós, tjáir hún sig sammála um, að frú Margrethe Schiöth, sem átt hefir öllum borgurum þessa bæjar drýgri þátt í að auka varanlega fegurð bæjarins með blóma- og trjárækt og skapa þannig öðrum fagurt fordæmi, verði kjörin heiðursborgari Akureyrarbæjar í tilefni af 70 ára afmæli hennar 31. þessa mánaðar.

Undir skjalið skrifa bæjarfulltrúarnir Árni Jóhannsson, Axel Kristjánsson, Þorsteinn Þorsteinsson, Elísabet Eiríksdóttir, Steingrímur Aðalsteinsson, Erlingur Friðjónsson, Jóhannes Jónasson, Jakob Karlsson, Þorsteinn Stefánsson, Indriði Helgason, Brynleifur Tobíasson, og bæjarstjórinn, Steinn Steinsen.

Margrét lést þann 20. júní 1962.