Fara í efni
Smámunasafnið

Einn griðastaða Einars Fals Ingólfssonar

SÖFNIN OKKAR – XLVI

Frá Listasafninu á Akureyri_ _ _

Akureyri.net heldur áfram að opna dyr safnanna í bænum lesendum til fróðleiks og skemmtunar. Það er gert vikulega, á fimmtudögum.

Einar Falur Ingólfsson
Öxarfjarðarheiði
2010
Ljósmyndaprent

Öxarfjarðarheiði er í röð ljósmyndaverka eftir Einar Fal Ingólfsson, sem hann kallaði Griðastaði og sýndi fyrst í Listasafni ASÍ í Reykjavík 2011. Síðar voru verkin sýnd á einkasýningu hans í Basel í Sviss og á samnefndri sýningu í Listasafninu á Akureyri 2017. Í lok sýningartímabilsins á Akureyri færði hann Listasafninu umrætt verk að gjöf.

Einar Falur skapaði ljósmyndaraðirnar Griðastaðir og Skjól á árunum eftir bankahrunið 2008. Hugmyndin var að sýna með þessum hlutlæga hætti – ljósmyndum teknum á formrænan og agaðan hátt á stórar 10 x 15 cm blaðfilmur – hugmyndir um staði þar sem fólk gæti leitað skjóls fyrir þeim hryðjum og ofsa sem skollið gæti á, í raunverulegu veðri sem og huglægu eins og gerðist við hrunið. Margir griðastaðanna sem ljósmyndarinn leitaði uppi og sýndi eru á hálendi Íslands, í eftirsóknarverðum náttúruminjum þar sem náttúruöflin geta þó reynst skaðleg. Þar á meðal er þetta litríka sæluhús á Melrakkasléttu miðri, gluggalaust á suðurhlið, sannkallaður griðastaður.

Einar Falur Ingólfsson er bókmenntafræðingur og með MFA-gráðu frá School of Visual Arts í New York. Verk hans hafa verið sýnd á söfnum og sýningarsölum víða um lönd og eru í eigu helstu listasafna á Íslandi. Hann mun opna sýninguna Útlit loptsins – Veðurdagbók í Listasafninu á Akureyri, laugardaginn 28. september kl. 15. Á sama tíma opna Georg Óskar og þýsku myndlistarkonurnar Detel Aurand og Claudia Hausfeld sýningar sínar, Það er ekkert grín að vera ég og Milliloft.