Páll tekur við stjórn Slippsins af Eiríki
Páll Kristjánsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Slippsins á Akureyri og tekur við starfinu um áramótin. Páll hefur stýrt framleiðslusviði félagsins. Hann er viðskiptafræðingur með framhaldsmenntun í fjármálum og alþjóðaviðskiptum frá Háskólanum í Árósum í Danmörku.
Páll þekkir vel til sjávarútvegstengdra verkefna, en hann starfaði áður hjá Marel, 3X Technology og sjávarútvegsfyrirtækinu GPG Seafood á Húsavík, þar sem hann var framkvæmdastjóri, að því er segir í tilkynningu frá Slippnum.
Eiríkur S. Jóhannsson sem verið hefur framkvæmdastjóri Slippsins í sex og hálft ár lætur af störfum á sama tíma. Hann mun verða stjórn og stjórnendum til ráðgjafar á komandi mánuðum.
Starfsfólki Slippsins var greint frá þessu í dag, ásamt öðrum skipulagsbreytingum í rekstri félagsins.
Margt í pípunum
„Starfsmenn Slippsins eru um 150 en má segja að þeir séu mun fleiri, því við leitum í ríku mæli til samstarfsfyrirtækja, þannig getum við þjónað viðskiptavinum okkar enn betur og boðið upp á heildarlausnir. Slippurinn hefur alltaf lagt ríka áherslu á góða og faglega þjónustu, sem er líklega helsta ástæðan fyrir því að viðskiptavinirnir koma aftur til okkar. Það er margt í pípunum og fullt tilefni til bjartsýni á þessum tímapunkti. Slippurinn er öflugt fyrirtæki með frábært starfsfólk og ég er því fullur tilhlökkunar,“ segir Páll Kristjánsson í tilkynningunni.
Bjartsýnn á framtíðina
„Ég lít stoltur um öxl. Tími minn hjá Slippnum hefur verið mér gefandi. Við höfum í sameiningu treyst undirstöður fyrirtækisins til muna og lagt mikið af mörkum til nýsköpunar, sem ég trúi að skapi Slippnum fjölmörg sóknartækifæri. Ég er bjartsýnn fyrir hönd Slippsins á komandi tímum, enda hefur starfsfólk félagsins sýnt og sannað að það er í fremstu röð á sínu sviði í þjónustu við alþjóðlegan sjávarútveg sem og aðra viðskiptavini,“ segir Eiríkur S. Jóhannsson. Aðspurður um tímasetningu þessara breytinga, segir hann: „Ég er í stjórnum margra félaga sem krefjast mun meiri athygli en ég hef náð að veita að undanförnu. Slippurinn er í góðum höndum hjá Páli og hans fólki, því var þessi ákvörðun einföld og að ég tel, félaginu til framdráttar,“ segir Eiríkur.
Aðrar skipulagsbreytingar kynntar
Í tilkynningunni frá Slippnum segir einnig:
- Magnús Blöndal Gunnarsson, sem verið hefur markaðsstjóri undanfarin ár, tekur við stjórn framleiðslusviðs félagsins af Páli Kristjánssyni. Magnús er sjávarútvegs- og fiskeldisfræðingur frá Háskólanum á Akureyri og Háskólanum að Hólum.
- Samhliða þessum breytingum mun Kristján H. Kristjánsson mannauðsstjóri taka yfir kynningarmál Slippsins. Kristján er menntaður byggingafræðingur, með áherslu á stjórnun, frá VIA University í Horsens í Danmörku.
- Nýverið tók Sveinbjörn Pálsson við stjórn Skipaþjónustusviðs Slippsins. Sveinbjörn er iðnaðarverkfræðingur frá Chalmers Tekniska Högskola í Gautaborg og hefur víðtæka starfreynslu til sjós og lands. Hann kom til Slippsins frá upplýsingatæknifyrirtækinu Þekkingu.
- Í sumar tók Elsa Björg Pétursdóttir við starfi fjármálastjóra félagsins. Elsa er menntaður viðskiptafræðingur frá Háskólanum á Akureyri og hefur m.a. starfað um árabil hjá Íslandsbanka, seinast sem svæðisstjóri einstaklingsviðskipta á Norður- og Austurlandi.
Fjölbreytni starfa er mjög mikil hjá Slippnum og starfsmannavelta almennt lítil. Safnast hefur upp áralöng þekking og reynsla sem einkennir vinnubrögð hjá starfsmönnum félagsins.
Kristján H. Kristjánsson, Elsa Björg Pétursdóttir, Magnús Blöndal Gunnarsson og Sveinbjörn Pálsson.