Fara í efni
Slippurinn - Akureyri

Luku við „byggingu“ Landsbankahússins

Mynd sem Þórhallur Jónsson birti á Facebook í kvöld, þar sem þeir feðgar, hann og Axel eru búnir að klára

Hús Landsbankans við Ráðhústorg er til sölu eins og Akureyri.net hefur greint frá.

Þórhallur Jónsson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins á síðasta kjörtímabili, formaður skipulagsráðs þá og nú varaformaður ráðsins, birti í kvöld skemmtilegar myndir á Facebook sem þeir Axel sonur hans útbjuggu. Þar hafa þeir „klárað“ að byggja húsið (í myndvinnsluforritinu Photoshop) eins og arkitektinn Guðjón Samúelsson teiknaði það á sínum tíma. Og stækkuðu meira að segja húsið frá því sem Guðjón hafði gert ráð fyrir.

„Landsbankahúsið við Ráðhústorg er til sölu eins og alþjóð veit og eru sumir á því að Akureyrarbær ætti að sjá sóma sinn í að kaupa húsið fyrir ráðhús (var oft rætt meðal kjörinna fulltrúa á síðasta tímabili) og hýsa svo það sem ekki er pláss fyrir þar í gamla ráðhúsinu, ekki alvitlaus hugmynd. En það eru fleiri hugmyndir á lofti td. mætti klára framhlið hússins og byggja frekar við þetta meistaraverk Guðjóns Samúelssonar sem aldrei var klárað og nýta það sem glæsihótel? Það er samt óskandi að sá sem kaupir húsið klári amk. framhlið hússins eins og við feðagar gerðum til gamans í [Photoshop],“ skrifar Þórhallur.

  • Glæsilegar myndir Þórhalls og Axels má sjá hér að neðan.

Fleiri hafa komið fram með þá hugmynd að Akureyrarbær kaupi húsið og nýti sem Ráðhús. Sigurður J. Sigurðsson fyrrverandi bæjarfulltrúi  fjallaði til dæmis um málið í grein sem birtist á Akureyri. net í morgun.