Fara í efni
Skógræktarfélag Eyfirðinga

Þórsliðið ótrúlega nálægt oddaleik

Maddie Sutton var öflug í naumu tapi Þórs í fjórða leik einvígisins við Val í átta liða úrslitum Íslandsmótsins. Myndin er úr fyrsta leik liðanna. Mynd: Skapti Hallgrímsson.

Kvennalið Þórs í körfuknattleik hefur lokið keppni á Íslandsmótinu, Bónusdeildinni, eftir tap fyrir Val í fjórða leik liðanna í átta liða úrslitum í gærkvöld. Leikurinn var jafn og spennandi, munurinn aðeins fimm stig þegar upp var staðið. Valur vann einvígið, 3-1. 

Valsliðið hóf leikinn mun betur, skoraði átta fyrstu stig leiksins og hafði 11 stiga forskot, 14-5, eftir um sex mínútna leik. Þá fór Þórsliðið loks í gang og minnkaði muninn jafnt og þétt fram eftir fyrri hálfleiknum og náði forystunni fyrir lok fyrri hálfleiksins, munurinn fjögur stig eftir fyrri hálfleikinn. Þórsliðið bætti svo við í upphafi seinni hálfleiksins og munurinn 5-10 stig fram í lokafjórðunginn. Þá fór Valur að saxa á forskotið, jafnaði í 68-68 þegar tæpar fjórar mínútur voru eftir. Liðið missti svo leikstjórnandann Evu Wium af velli með fimm villur þegar þrjár mínútur voru eftir. Þórsliðinu gekk illa að skora á þessum lokamínútum og raunar í öllum fjórða leikhlutanum, sem Valur vann 19-9. Niðurstaðan fimm stiga sigur Vals, 75-70. 

Maddie Sutton var öflug í Þórsliðinu að venju, ekki aðeins með flest fráköst heldur skoraði mest allra í liðinu. Maddie spilaði 40 mínútur, skoraði 26 stig, tók 14 fráköst og átti fimm stoðsendingar. Framlagsstigin voru 39.

Helstu tölur leikmanna Þórs, stig, fráköst og stoðsendingar.

  • Maddie Sutton 26 - 14 - 5 - 39 framlagsstig
  • Amandine Toi 14 - 1 - 3
  • Esther Fokke 13 - 3 - 0
  • Hanna Gróa Halldórsdóttir 8 - 3 - 3
  • Eva Wium Elíasdóttir 7 - 2 - 4
  • Emma Karólína Snæbjarnardóttir 2 - 8 - 0
  • Hrefna Ottósdóttir 0 - 2 - 0
  • Adda Sigríður Ásmundsdóttir, Katrín Eva Óladóttir, Karen Lind Helgadóttir og María Sól Helgadóttir komu ekki við sögu í leiknum.

Þórsliðið er þar með komið í sumarfrí og þar að auki á leið í þjálfaraleit því eins og fram kemur í annarri frétt hefur Daníel Andri Halldórsson þjálfari tilkynnt að hann hyggist leita nýrra áskorana og muni ekki þjálfa Þórsliðið á næstu leiktíð.