Fara í efni
Skógræktarfélag Eyfirðinga

Metaðsókn í Skógarböð – Bríet trekkti að

Bríet náði upp góðri stemmingu í Skógarböðunum. Mynd: Hilmar Friðjónsson
Tvennir tónleikar voru haldnir í Skógarböðunum í gær og var fullbókað á þá báða. Ingó Veðurguð var með tónleika seinnipartinn og Bríet um kvöldið.
 

Að sögn Írisar Óskar Gísladóttur, sölu- og markaðsstjóra Skógarbaðanna, tókust báðir tónleikarnir mjög vel og komust færri að en vildu. Eins og sést á meðfylgjandi myndum, sem ljósmyndarinn Hilmar Friðjónsson tók á Bríetar tónleikunum, var stemningin í gærkvöldi gríðarlega góð og spilaði umhverfið, tónlistin og veðrið mjög vel saman. „Þetta tókst einkar vel, allir voru mjög ánægðir og veðrið æðislegt. Bríet er líka svo flott og mikill „performer.“ Hún er svo jákvæð, með mikla útgeislun, þægilega nærveru og nær mjög vel til aðdáanda sinna,“ segir Íris.

Hvað varðar tónleika Ingós í Skógarböðunum þá höfðu margir mjög sterkar skoðanir á þeim og sköpuðust heitar umræður um þá á Facebooksíðu Skógarbaðanna. Íris Ósk segir að Ingó sé vissulega umdeild persóna en vildi að öðru leyti ekki tjá sig um málið nema að tónleikarnir hefðu heppnast mjög vel og gestir hefðu verið ánægðir.

Metfjöldi gesta um verslunarmannahelgina

Síðan Skógarböðin opnuðu fyrir tveimur árum síðan hafa þar reglulega verið haldnir tónleikar. Mc Gauti spilaði þar um síðustu verslunarmannahelgi, Prettyboitjokko í apríl síðastliðnum og svo mætti lengi telja. Í vetur verður að sögn Írisar boðið upp á fimmtudagstónleikar annan hvern fimmtudag og bendir hún heimafólki á að það sé  tilvalið að nýta vetararkortin til þess að upplifa þá. Þá sagði Íris að aðsókn í Skógarböðin hafi verið mjög góð undanfarna mánuði og var gærdagurinn sá allra stærsti frá opnun baðanna en þá var gestafjöldinn 1100 manns.

Góð tónlist, slökun og frábært veður í Skógarböðunum í gær. 

 

Bríet er líka svo flott og mikill performer. Hún er svo jákvæð, með mikla útgeislun, þægilega nærveru og nær mjög vel til aðdáanda sinna.

 

Þegar tónleikar eru haldnir í Skógarböðunum leggst ekkert aukagjald ofan á aðgangaseyrinn. Gestir fá einfaldlega aukaupplifun.