Fara í efni
Skógræktarfélag Eyfirðinga

KA komst auðveldlega í 16-liða úrslitin

Dagbjartur Búi Davíðsson skoraði þriðja mark KA með glæsilegu skoti fyrir utan teig og fagnar því skælbrosandi með Jakobi Snæ Árnasyni og Mikael Breka Þórðarsyni. Mynd: Ármann Hinrik.

Bikarmeistarar KA í knattspyrnu karla hófu titilvörnina í dag þegar þeir mættu Austfirðingunum í KFA á heimavelli í 32-liða úrslitum Mjólkurbikarsins. Fyrirfram var búist við að bikarmeistararnir myndu sigla þægilega áfram í 16-liða úrslitin, enda er lið KFA tveimur deildum neðar en KA. En eins og margoft hefur sannast þá getur allt gerst í bikarkeppni og ekkert lið getur fyrirfram bókað sigur gegn lægra skrifuðum andstæðingi. KA-menn gerðu þó engin mistök í dag og unnu sannfærandi 4:0 sigur á gestunum að austan.

Viðar Örn Kjartansson framherji KA er meiddur og var því fjarri góðu gamni í dag. Nokkrir aðrir fastamenn byrjuðu á bekknum en engu að síður stillti KA upp sterku liði og ljóst að ekki stóð til að vanmeta andstæðinginn. Fyrr í vikunni gekk Marcel Römer til liðs við KA frá Danmörku og hann var á bekknum í dag.

Jakob Snær Árnason (29) skorar annað mark KA í 2-0 á 42. mínútu, eftir sendingu frá Mikael Breka Þórðarsyni, aðeins þremur mínútum eftir að gestirnir skoruðu sjálfsmark. Myndir: Ármann Hinrik.

Bikarmeistararnir tóku fljótt öll völd á vellinum og stýrðu gangi leiksins. Austfirðingar voru þó þéttir fyrir í vörninni og KA gekk illa að skapa sér einhver færi. Lítið markvert gerðist fyrr en KA komst yfir á 38. mínútu eftir afskaplega slysalegt sjálfsmark gestanna. Þar var að verki spilandi þjálfari liðsins, Eggert Gunnþór Jónsson. Þremur mínútum síðar tvöfaldaði Jakob Snær Árnason forystuna fyrir heimamenn og staðan var því vænleg þegar flautað var til leikhlés.

Yfirburðir KA héldu áfram í síðari hálfleik og um hann miðjan skoraði hinn 18 ára gamli Dagbjartur Búi Davíðsson þriðja mark KA með hreint frábæru skoti en hann hafði komið inn á sem varamaður þremur mínútum fyrr.

Á sama tíma kom Marcel Römer líka inn á sem varamaður og hann var ekki mikið lengur að stimpla sig inn. Á 80. mínútu gerði hann fjórða mark bikarmeistaranna, eftir aukaspyrnu frá Jóan Símun Edmundsson. En sá kom einmitt líka inn á sem varamaður á sama tíma og hinir tveir.

Öruggur sigur í höfn og ljóst að miði með nafni KA verður í pottinum þegar dregið verður í 16-liða úrslitin í Mjólkurbikarnum.

Leikskýrslan

Varamennirnir skora, fyrsta mark Römers

Dagbjartur Búi Davíðsson skoraði glæsilegt mark á 69. mínútu, örfáum mínútum eftir að hann kom inn sem varamaður. Myndir: Ármann Hinrik.

Marcel Ibsen Romer var varamaður í dag og kom inn á 65. mínútu í sínum fyrsta leik með liðinu og skoraði fjórða mark KA stundarfjórðungi síðar. Mynd: Ármann Hinrik.