Fara í efni
Skógarböðin

Uppselt í ferðina á leik Liverpool og Man City

Uppselt er í ferð sem Akureyri.net, ferðaskrifstofan TA Sport og Premierferðir standa fyrir á leik Liverpool og Manchester City í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu. Vegna mikils áhuga er undirbúningur annarrar ferðar seinna í vetur þegar hafinn.

Flogið verður með easyJet frá Akureyri til Manchester laugardaginn 30. nóvember, leikurinn fer fram daginn eftir á heimavelli Liverpool, Anfield Road, og haldið verður heim á ný með easyJet frá Manchester þriðjudaginn 3. desember. Gist verður á góðu hóteli í miðborg Liverpool.

Í boði voru 32 miðar á leikinn. „Við erum mjög þakklát fyrir þessi frábæru viðbrögð. Ferðin seldist upp á nokkrum dögum, eftir að endanlega varð ljóst að leikurinn yrði færður frá laugardegi til sunnudags, og við erum nú þegar byrjuð að undirbúa aðra ferð í vetur í beinu flugi frá Akureyri á leik í Englandi,“ segir Júlíus Geir Guðmundsson, framkvæmdastjóri TA Sport.

Stefnt er að því að fara aftur á Anfield Road síðar í vetur en til greina kemur að bjóða upp á ferð til að sjá önnur lið á heimavelli, til dæmis Manchester United, sem einnig á sér fjölmarga áhangendur á Akureyri og nágrenni.

Fararstjóri í ferðinni á leik Liverpool og Manchester City verður Skapti Hallgrímsson, ritstjóri Akureyri.net og stuðningsmaður Liverpool til áratuga.