Hokkí heima í dag – blak og karfa syðra

Úrslitakeppni Íslandsmóts karla í íshokkí, Toppdeildarinnar, hefst í dag, viku seinna en upphaflega var áætlað eins og fram hefur komið í fréttum. Það verða lið SA og SR sem mætast í einvíginu og deildarmeistarar SA eiga fyrsta heimaleikinn. Úrslitakeppni í blaki og körfubolta kvenna er komin af stað og í dag eiga KA og Þór útileiki, kvennalið KA í blaki mætir HK í öðrum leik liðanna og kvennalið Þórs í körfubolta mætir Val í öðrum leik einnig.
KA með forystu í einvíginu
Annar leikur í einvígi KA og HK í undanúrslitum Íslandsmóts kvenna í blaki verður spilaður í Digranesinu í Kópavogi á laugardag. KA vann fyrstu viðureignina af miklu öryggi, 3-0.
- Unbroken-deild kvenna í blaki – undanúrslit – leikur 2
Digranes í Kópavogi kl. 15
HK - KA
Þórsliðið í meiðslavandræðum
Annar leikur í einvígi Þórs og Vals í úrslitakeppni Íslandsmóts kvenna í körfuknattleik, Bónusdeildarinnar, verður spilaður í Valsheimilinu í dag, en leikurinn er í átta liða úrslitum. Valur stal heimavellinum með sigri á Akureyri á miðvikudagskvöld í spennandi leik þar sem meiðsli lykilleikmanna háðu Þórsliðinu verulega þegar upp var staðið.
- Bónusdeild kvenna í körfuknattleik – átta liða úrslit – leikur 2
Valsheimilið að Hlíðarenda kl. 16:00
Valur - Þór
Loksins komið að hokkíeinvíginu
Óþreyjufullir íshokkíunnendur á Akureyri geta tekið gleði sína á ný í dag eftir að hafa þurft að bíða í viku aukalega eftir því að úrslitaeinvígið í karlaflokki hæfist. Kærumál settu strik í reikninginn, en nú eru þau að baki og vikubiðin einnig því úrslitaeinvígi Skautafélags Akureyrar og Skautafélags Reykjavíkur hefst í dag.
Liðin mættust sex sinnum í Toppdeildinni í vetur og vann hvort lið þrjá leiki. SA vann tvisvar á heimavelli og einu sinni á útivelli og SR sömuleiðis. Það er því óhætt að fullyrða að von sé á jöfnu og spennandi einvígi þessara liða. SR er ríkjandi Íslandsmeistari og hefur unnið titilinn tvö ár í röð og öruggt að Akureyringum líður ekkert vel með það og ætla að endurheimta bikarinn.
- Toppdeild karla í íshokkí – úrslitaeinvígi – leikur 1
Skautahöllin á Akureyri kl. 16:45
SA - SR