Fara í efni
Skógarböðin

Frábært sumar og vetrarkort vinsæl

Skógarböðin við rætur Vaðlaheiðar gegnt Akureyri voru opnuð í lok maí í vor og óhætt er að segja að staðurinn hafi hitt í mark. Þar var þétt setinn bekkurinn nánast í allt sumar, framkvæmdastjórinn segir aðeins hafa róast með haustinu en horfir afar bjartsýn inn í veturinn og segir vetrarkort sem nú eru í boði þegar njóta vinsælda.

„Aðsóknin frá opnun Skógarbaðanna hefur verið frábær og margir tugir þúsunda gesta hafa sótt okkur heim. Bæði innlendir sem erlendir gesta hafa verið duglegir að koma til okkar og móttökurnar hafa í sjálfu sér verið framar okkar vonum og upplifun gesta mjög góð,“ segir Tinna Jóhannsdóttir framkvæmdastjóri.

„Við finnum það núna að sumri loknu að það er aðeins farið að hægja á traffíkinni, sérstaklega á virkum dögum enda engin skemmtiferðaskip að leggjast að bryggju á Akureyri núna og ferðamannastraumurinn orðinn rólegri,“ segir Tinna.

„Við bindum hins vegar miklar vonir við vetrartrafíkina og vitum með vissu að helgarnar í vetur verða mjög stórar hjá okkur. Við ætlum að vera með opið til miðnættis áfram og teljum að það verði vinsælt í vetur að sækja okkur heim þegar að fólk er búið að heimsækja fjallið, fara á gönguskíði eða njóta alls annars sem Akureyri hefur upp á að bjóða.“

Veitingastaður og vetrarkort

„Skógur Bistró veitingastaðurinn hefur líka fengið frábærar viðtökur til þessa og brönsinn okkar á föstu-, laugar- og sunnudögum hefur verið einstaklega vinsæll,“ segir Tinna.

Boðið hefur verið upp á lifandi tónlist reglulega síðan Skógarböðin voru opnuð. Hér skemmta Hvannadalsbræður gestum baðanna í sumar.

„Við hlökkum til vetrarins og þess að taka oft og mörgum sinnum á móti vetrarkortshöfum sem eru orðnir ótalmargir. Einnig eru mörg fyrirtæki að gera vel við sína starfsmenn með því að sækja okkur heim, enda uppsöfnuð þörf hjá fólki að gera eitthvað skemmtilegt saman eftir fá slík tækifæri undanfarin ár sökum heimsfaraldursins.“

Vetrarkortin sem Tinna nefndi eru tvenns konar:

  • Einstaklingskort sem kosta 75.990 krónur
  • Hjóna/parakort sem kosta 99.990 krónur

Vetrarkortin gilda frá 1. október til og með 30. apríl og handhafar þeirra geta komið í Skógarböðin hvenær sem þeir vilja og eins oft og þeir vilja, svo fremi þar sé pláss, segir Tinna. Ekkert er hægt að bóka fyrirfram þegar fólk notar vetrarkort, segir hún, og kortin eru skráð á kennitölur fólks.

„Eftirspurnin eftir vetrarkortunum hefur verið mikil og móttökunar frábærar enda margir sem vilja sækja Skógarböðin heim oft og mörgum sinnum,“ segir Tinna. „Fátt er notalegra en að geta látið líða úr sér eftir kvöldmat, eftir skíðin í brekkunum eða bara byrja alla laugardaga á að njóta í Skógarböðunum, fara í saununa og/eða kalda pottinn!“

Vetrarkortin eru til sölu í móttöku Skógarbaðanna eða á heimasíðunni www.forestlagoon.is/vetrarkort