Fara í efni
Skipulagsmál

Vilja byggja allt að 100 íbúðir í brekkunni sunnan við Glerártorg

Svæðið sem um ræðir. Hús Oddfellow og Safnaðar Votta Jehóva eru sunnan við brekkuna, handan Byggðavegar. Ljósmyndir: Snæfríður Ingadóttir

Eik fasteignafélag hefur áhuga á því að byggja allt að 100 íbúðir á lóð Glerártorgs. Um er að ræða sannkallaðar miðbæjaríbúðir þar sem hægt verður að nálgast alla helstu þjónustu fótgangandi.

„Þetta eru mjög stór og metnaðarfull áform um uppbyggingu sem styrkja mun Glerártorg enn frekar. Við höfum fengið Kollgátu á Akureyri til þess að vinna þessar hugmyndir fyrir okkur og erum að fara að kynna þetta fyrir skipulagsyfirvöldum á Akureyri,“ segir Sturla Gunnars Eðvarðssonar, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá fasteignafélaginu Eik.

Ýmislegt er í pípunum í verslunarmiðstöðinni sjálfri eins og Akureyri.net greindi frá í morgun: Sjö veitingastaðir í mathöll á Glerártorgi

Eik fasteignafélag ætlar á næstunni að leggja hugmyndir sínar um íbúðabyggð í brekkunni sunnan megin við Glerártorg fyrir skipulagsyfirvöld á Akureyri. Samkvæmt þeirra hugmyndum væri hægt að byggja allt að 100 íbúðir við verslunarmiðstöðina.

Miðbæjaríbúðir á besta stað

Hugmyndirnar ganga í stuttu máli út á það að íbúabyggð geti byggst upp í brekkunni sunnan megin við Glerártorg. Íbúðirnar yrðu með bílakjallara og hugsaðar til búsetu fyrir heimamenn sem kjósa að hafa alla þjónustu í göngufæri. „Þú getur gengið á Glerártorg, gert matvöruinnkaupin þín í Nettó, farið í bankann, í apótekið, til læknis, út að borða og keypt þér nánast hvað sem er án þess að hreyfa bílinn,“ segir Sturla. Hann talar um þessar íbúðir sem miðbæjaríbúðir enda líklegt að miðbærinn muni að einhverju leyti færast til með uppbyggingunni á gamla Akureyrarvellinum. „Glerártorg er náttúrlega algjörlega miðsvæðis á Akureyri. Allar helstu samgönguæðar bæjarins liggja að Glerártorgi; Glerárgatan, Borgarbrautin og Þórunnarstrætið. Þetta er því mjög spennandi verkefni sem stuðlar að því að styrkja Glerártorg enn frekar.“

Arkitektastofan Kollgáta er að teikna upp hugmyndir að íbúðabyggð í brekkunni við hliðina á dekkjaverkstæði Hölds. Íbúðunum er lýst sem miðbæjaríbúðum með alla þjónustu í göngufæri. 

Stór byggingaráform

Fyrir ári síðan var Eik fasteignafélag með hugmyndir að 700 fm stækkun á Glerártorgi til suðvesturs. Ekkert varð úr þeim áformum þar sem stækkunin var hugsuð fyrir Áfengis og tóbaksverslun ríkisins sem var að leita að nýju húsnæði undir verslun sína á Akureyri . „Þetta voru virkilega glæsilegar hugmyndir sem við lögðum fram af umhverfisvænni byggingu sem við vildum byggja undir þá en það gekk því miður ekki upp,“ segir Sturla en eins og fram hefur komið í fjölmiðlum hefur ÁTVR ákveðið að opna verslun á Norðurtorgi árið 2024. Í tengslum við áðurnefnda stækkun átti einnig að fjölga bílastæðum við Glerártorg en þær hugmyndir eru ekki alveg dottnar út af borðinu. „Við eigum eftir að sjá fyrst hvernig þessar íbúða hugmyndir púslast saman. Þessi byggingaráform eru af þeirri stærðargráðu að við reiknum með því að bæjaryfirvöld vilji skoða þetta vel.“

Íbúðabyggð við Glerártorg myndi styrkja verslunarmiðstöðina enn frekar og íbúðirnar væru góður kostur fyrir þá sem vilja hafa aðgang að helstu þjónustu án þess að þurfa að hreyfa bílinn, að mati framkvæmdastjóra viðskiptaþróunar hjá fasteignafélaginu Eik.